top of page

Sameinuð ♡


Dásamlegt að vera komin með alla saman aftur ♡

Myrra er útskrifuð af Barnaspítalanum og er hún bara í bómul og gjörgæslu hjá mér. Það er auðvitað allt annað líf að vera komin heim.

Ég er með töng, frá sjúkrahúsinu, sem fylgir okkur hvert sem við förum upp á ef einhver vandi verður með öndunarveg Myrru þá get ég klippt á vírana og hringi á sjúkrabíl.

Myrra stendur sig enn eins og hetja og er bara á fljótandi fæði og er ekkert að pirra sig yfir að vera víruð saman.

Og þar sem skottan er svona ótrúlega dugleg að ná bata þá náðum við að fara í útskriftarveislu Perlu og Arnar ♡

Dásamlega tengdafjölskylda Perlu hélt stórglæsilega veislu fyrir þau og systur Arnar sem útskrifaðist einnig á sama degi.

Það kom aðeins upp hjá Myrru að hana langaði líka í tertur en við ræddum saman og ákváðum að hún mun fá tertuveislu um leið og vírarnir verða teknir og hún búin að ná sér :)

Ég tókum ís með okkur í veisluna og var Myrra mjög ánægð með ísinn sinn.

Snillingarnir okkar Hrafnhildur Hanna, Örn og Perla útskrifuð með Bs gráðu frá Háskóla Íslands

Guð hvað það var dásamlegt að ná að komast í veisluna hjá þeim og fagna áfanganum með þeim. Endalaust dásamleg og dugleg og eiga sko allt það besta skilið.

Þau eru búin að vera dásamleg stoð fyrir okkur og voru með Eldon og Bæron hjá sér á meðan við Myrra vorum á sjúkrahúsinu. Algjörir snillingar

Dásamlegu mín mín mín ♡♡♡

Það gengur misvel að fá alla til að vera tilbúna fyrir myndatöku og alls ekki hlaupið að því að ná okkur öllum á eina mynd hahaha. ♡

Allir kátir, með ör, mis marin, plástruð og í gifsi en guð minn almáttugur hvað ég er rík og hvað ég á dásamleg börn ♡

Jasmín snúlla verður átta ára á morgun 26. júní en þar sem Myrra er enn í búbluplasti á gjörgæslu-mömmu og getur ekkert borðað þá ætlum við að fresta að halda upp á krakka afmæli fyrir Jasmín.

En í tilefni dagsins ætlum við fjölskyldan að fara eitthvert og fá okkur ís, því öll getum við borðað ís saman :)

Svo þurfum við bara hægt og rólega að byrja að aðlaga okkur aftur að lífinu. Það var alveg smá sjokk að fatta að það er komin mánudagur og ýmislegt sem þarf að gera og koma í verk. En dagurinn í dag er búinn að vera góður og við í fínu jafnvægi.

Já og svo er ég komin með nýtt hlutverk og þarf að fara að vinna upp tapaðan tíma með litla ömmusnúðnum. Hann er líka alsæll og ánægður með að fá okkur heim ;)

Húðin á mér fór öll í steik eftir þetta áfall allt og sjúkrahúslegu. Ég ákvað að það skiptir litlu máli þar sem ég á endalaust af gullfallegum og dásamlegum molum sem bæta allt, og ég hlýt að lagast eitthvað með tímanum... vonandi hahaha :)

Amman og nýjasti snúðurinn ♡

Fanney og sonur

Og Örn alltaf uppáhald hjá okkur

svo fjölgaði smátt og smátt á myndunum hjá okkur hahah, elska þessa mola mína alla

Eldon Dýri aðeins of mikill töffari :D

Systur ♡♡

Myrra og snúður litli alltaf dásamleg saman

Ég fékk Perlu og Örn til að kaupa nokkra barnabílstóla fyrir mig svo við kæmumst heim hahaha :)

Morgunin eftir heimferðarleyfi Myrru þá fórum við upp á spítala í tékk. Ég settist undir stýri í ókunnum bíl og var að leggja af stað upp á sjúkrahús þegar tárin hrundu niður.

Það var eitthvað við þetta allt og við það að fara aftur upp á sjúkrahús, eftir sigurinn að geta farið heim, sem bugaði mig alveg.

Ég mátti hafa mig alla við til að sannfæra mig um að þetta yrði allt í góðu og Myrra þyrfti ekki að leggjast aftur inn. Sem varð svo auðvitað raunin. Myrra kom mjög vel út úr heimsókn okkar upp á sjúkrahús og var hún útskrifuð samdægurs með skilyrði um að nærast vel og fara ofurvarlega. Þvílíkur léttir og sigur sem þetta var ♡

Ég fór á laugardaginn með Helgu systir og krökkunum í búðir að leita eftir dúkkuvagni handa Myrru. Ég lofaði henni dúkkuvagni og dúkku í verðlaun þegar við myndum útskrifast. Það var aðeins of stórt skref að fara í risa búðirnar sem við fórum í, vorum ekki alveg upplagðar í það svo snemma.

Við fundum engan góðan dúkkuvagn en við fundum svona sulluborð sem við getum skemmt okkur með úti þegar veðrið ákveður að gleðja okkur :)

Dagurinn í dag er búinn að vera mjög góður og erum við alveg komnar í gott jafnvægi.


bottom of page