top of page

Þakklæti


Eftir leikskóla fór ég með slatta af börnunum mínum og Áka, son Helgu systur, upp á Akranes til að leyfa krökkunum að sjá nýjasta fjölskyldumeðliminn.

Sóley og Máney áttu flug erlendis daginn eftir svo það var auðvitað bráðnauðsynlegt að kíkja á glænýja son Fanneyjar áður en þær færu erlendis :)

Krakkarnir voru öll alsæl með litla fallega frændann. Við keyptum okkur Dominos pizzu á leiðinni út úr bænum og allir voru bara ofboðslega glaðir og hamingjusamir.

Ferðin endaði ekki alveg eins og við gerðum ráð fyrir. Við lentum í árekstri á leiðinni í bæinn aftur og vorum öll send með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítalans.

Jasmín snillingur fór í það að aðstoða eina hjúkrunarkonuna á gjörgæslu Landspítalans við að kortleggja okkur fjölskylduna sem var komið þarna og sýnir þessi mynd hvernig allt hafði breyst á svipstundu.

Það vantar nokkur nöfn þarna inn á myndina en þetta "hugtakakort" var smá leiðarvísir fyrir starfsfólkið sem hugsaði um okkur :)

Og guð minn góður hvað ég er þakklát fyrir hvað við eigum flott heilbrigðisstarfsfólk. Ég verð þeim ævinlega þakklát og fengum við frábæra umönnun.

Krakkarnir, upp á Akranesi, að skoða og kynnast litla Fanneyjar syni

Myrra einbeitt á snudduvaktinni og Jasmín stóra systir til aðstoðar :)

Nýjasti molinn

Ég sest við tækifæri og skrifa um þetta kvöld en eins og staðan er núna þá er einfaldlega ekki tími til þess. Við erum öll útskrifuð af sjúkrahúsinu nema Myrra Venus. Við erum ofboðslega lánsöm og þakklát fyrir að ekki fór verr og flestir komnir heim, misklamberaðir en á lífi.

Elsku Myrra skottan mín mun þurfa aðeins lengri tíma til að ná sér og hún mun einnig ná sér að fullu og færumst við einu skrefi nær bata á hverjum degi.

Fanney sendi mér myndir af krökkunum eftir að þau útskrifuðust og voru komin heim að knúsa litla kall. Hér er Frosti bara nokkuð sætur og hamingjusamur meðlimur sjóræningjafjölskyldunnar

Bæron Skuggi skynsamur og hefur allan varann á

Alsælir bræður með litla kútinn okkar

En svona í fljótheitum hvernig staðan er núna, þá er Myrra Venus enn á gjörgæsludeild og er henni haldið sofandi. Hún er í öndunarvél en hún er ótrúlega dugleg og þrjósk og er farin að anda sjálf en vélin er til stuðnings og til öryggis.

Það er byrjað að létta svæfinguna hjá henni og var hún þónokkuð að hreyfa sig og rumska í dag en vaknaði ekki. Það er gert ráð fyrir að það muni taka 3 - 4 daga að vekja hana og mun það alveg fara eftir henni hve mörg skref verða tekin áfram og hvort þurfi að taka einhver til baka eða ekki.

Hún er ofboðslega dugleg, skýr, skynsöm, þrjósk og glaðlynd svo ég vona að þessir eiginleikar hennar nýtist okkur í þessari vinnu sem fram undan er.

Það er vakað yfir Myrru allan sólahringinn og er ég endalaust þakklát fyrir dásamlega starfsfólkið hér.

En Myrru býður ofboðslega stórt og erfitt verkefni. Hún marðist á lunga og kjálkabrotnaði og er því með kjálkan víraður saman. Hún getur því hvorki bitið saman né opnað kjálkann. Öndunarvélin er í gegnum barkann til að auðvelda henni og til að hægt yrði að komast að öndunarveginum auðveldlega ef þyrfti þar sem kjálkinn er víraður saman.

Og þar sem öndunarvélin fer í gegnum barkann þá heyrist engin rödd.

Svo það sem elsku litla Myrra þarf að takast á við núna á næstu dögum er að vakna eftir svæfinguna, vera með kjálkann fastan og hún mun ekki getað talað til að segja frá því hvernig henni líði eða hvað sé að. Gráturinn hennar heyrist ekki einu sinni.

Ég veit að hún er ofboðslega mikið hörkutól en þetta er ansi mikið sem lagt á litla skottu sem ætlaði bara rétt að kíkja eftir leikskóla á nýfædda frænda.

Við verðum á Landspítalanum á meðan vírarnir eru og óskum við þess innilega að það verði dásemdar sumar komið eftir sex vikur þegar við förum heilar heim og Myrra búin að ná sér og vona ég innilega að allt gangi yfirnáttúrulega vel.

Sem betur fer eru börn ótrúlega sterk og dugleg að aðlagast svo við vonum allt það allra allra besta.

Við mæðgur ætlum allavega að vera súper súper sterkar saman í sumar.

Við erum einnig óendanlega þakklát. Ég er að springa úr þakklæti fyrir að við séum öll á lífi. Ég viðurkenni að ég sveiflast á milli þess að vera að springa úr þakklæti og svo hágráta yfir hvað Myrra þarf að ganga í gegnum, En við erum öll á lífi og við eigum æðislega fjölskyldu og vini og eru allir til í að aðstoða og létta undir með okkur. Starfsfólk Landspítalans er alveg eðalteymi og það er í raun allt að ganga eins vel og mögulega hægt er eins og staðan er.

Takk innilega allir fyrir kveðjurnar og stuðninginn sem þið sýnið okkur fjölskyldunni. Við metum það innilega og erum endalaust þakklát. Takk takk innilega ♡♡♡

Ég mun setja inn hér eða á facebook síðu mína hvernig framvindan hjá okkur verður, hvenær Myrra vaknar og hvernig við höfum það.

Sumarið verður víst allt öðruvísi en ég hafði gert ráð fyrir sem kennir mér enn betur að njóta augnabliksins og hversdagsleikans, því maður veit greinilega aldrei hvað bíður manns. Er ég því endalaust þakklát og hamingjusöm fyrir hvað við eigum gott og góða að ♡♡♡


bottom of page