top of page

Jafnvægi og lestur yngstu gormanna


Það sem litla fólkið er duglegt og fljótt að ná hlutunum :) Myrra og Bæron fengu sitthvort jafnvægishjólið um jólin, þau náðu strax tækninni og voru fljótt farin að hlaupa um og láta sig renna á hjólunum inni.

Ég leyfði þeim að fá hjólin út núna fyrir þrem dögum þar sem snjórinn er farinn, og það er æðislegt að fylgjast með þeim :D

Allstaðar þar sem þau finna smá halla þar láta þau sig renna niður með fætur upp, jafnvægið alveg í topp standi hjá þessum gormum sem urðu tveggja og þriggja ára núna í byrjun árs :)

Og það er ekkert verið að auðvelda þeim aðstæður hér, þar sem þeim er einungis boðið upp á möl, gras, drullu og torfærur hahaha :)

Þau eru fyrst af börnunum mínum til að prófa jafnvægishjól og því er ég mjög spennt að sjá hvort hægt verði að sleppa því að nota hjálpadekk þegar þau fara á hjól með petala. Hjólin eru líka mjög létt og því auðvelt fyrir þessi litlu skott að ráða við þau og geta þau haldið á hjólunum og labbað með þau.

Þetta er sem sagt aðal sportið hér þessa dagana, og ráða þau jafn vel við hjólin hvort sem þau eru dúðuð í útigalla, pollagalla eða bara í úlpu. Já ég reyndi sem sagt nokkru sinnum að ná myndum af þeim og tók því eftir að þau fara alveg jafn létt með þetta sama hversu dúðuð þau eru.

Ég er alveg kolfallin fyrir þessari dásamlegu sýn að horfa á þau hlaupa um og renna sér á þessum hjólum :)

Og svo inni, þá grípa þau meðal annars í að læra og æfa lestur :D

Eldon varð fimm ára í byrjun árs og kann orðið að lesa og erum við áfram að æfa það og Myrra er komin með flesta stafi á hreint.

Lestrabókin, við lesum A, er svo ótrúlega skemmtileg og góð til að læra að lesa, fullt af myndum og skemmtilegum texta. Krökkunum finnst það vera skemmtilegur leikur þegar þau eru að læra lestur :)

Þetta er önnur bókin sem ég hef keypt af þessari bók þar sem sú fyrri var alveg fulllesin eftir lestur slatta barna, hún var alveg búin :)

Ég hef notað þessa bók við að kenna öllum börnunum okkar að lesa, já og Helgu systir og nokkrum öðrum. Þessi bók er líka notuð til lestrakennslu í 1. bekk í einhverjum skólum.

En það er svo dásamlegt hvað litlir gormar eru ótrúlega dugleg að ná hlutum og snilld þegar kennsla getur verið skemmtileg og leikur :)

Þetta er bókin, flestir kannast við hana þessa :)

Svolítið mikið notuð, enda alltaf til taks fyrir yngstu að skoða.


bottom of page