top of page

Brot frá vikunni


Já mig langar mjög mikið til að gera garðinn minn þannig að hann verði vel nothæfur í sumar, allavega að það verði hægt að sitja úti við borð, geta haft kaffitímana úti og borðað, langar reyndar líka í svona flott grátt sófasett eins og svo margir eru komnir með, blómakassa, grindverk, já og gasgrill!

Svo eftir langa, mikla og erfiða ákvörðun þá fór ég á netið og keypti garðborð, samt alls ekki eins og ég hafði séð fyrir mér, skynsemin tók völdin og fagurfræðin varð að víkja. Í staðin fyrir að kaupa fallegt borð og slatta af stólum eða fallega gráa sófasettið og borð í stíl, þá keypti ég massívan hlunk sem er samfast borð og bekkir!

Ég hef núna haft nokkra daga til að melta þessa ákvörðun og er bara orðin nokkuð ánægð með hana ;)

Brandarinn við þetta líka, er að þegar ég var að kaupa borð-bekkinn, þá var ég lengi að ákveða hvort ég ætti að kaupa eitt eða tvö stykki en ákvað svo að kaupa eitt þó ég vissi að það veitti ekkert af tveimur, ég myndi þá bara bæta öðru við síðar.

Ég var ekkert að ræða þessar pælingar mínar við Albert sem hafði nóg annað að gera en að hlusta á garðhúsgagna pælingar hjá mér, en svo þegar borð-bekks hlunkurinn minn kom í pakkhúsið þá sagði Albert mér að hann hefði verið að smíða eitt svona borð fyrir okkur!

Þvílík eðal samstilling í gangi! Ég þarf ekki einu sinni að ræða við manninn, hann uppfyllir bara óskir mínar óumbeðinn :)

Svo nú á ég 2 garðborð og þarf ekkert að spá lengur í hvort ég ætti að panta annað eða ekki.

Ég keypti líka trampolín fyrir krakkana sem vakti mikla ánægju, en ég keypti bara eitt stykki af því ;) þó það veitti nú stundum alveg af tveimur eða fleirum…

Já og gasgrillið mitt, það dó í lok síðasta sumars og er alveg jafn dáið núna, svo ég setti kol í ónýta gasgrillið og grillaði í kvöld því Sunna næst elsta dóttir Alberts er hjá okkur með fjölskyldu sína og það er svo fljótlegt og þægilegt að geta bara skellt kjöti á grillið. En vá hvað ég er ekki kolagrill manneskja! Ég verð að setja gasgrill ofarlega í forgang.

Ég er þannig að ef mér dettur allt í einu í hug að grilla þá vil ég bara geta kveikt á grillinu sem hitnar strax og matinn á, það er ekki alveg að virka fyrir mig að vesenast með kol og bíða eftir að þau verði grá og heit og fara þá í að grilla kjötið. Ég er meira að segja svo slæm að stundum skelli ég frosnu kjöti aðeins í örbylgjuofninn til að afþýða það strax og svo beint á grillið.

Svo ég og bið eftir kolum…. nei það er ekki alveg að gera sig.

Annars þá fórum við til Akureyrar í vikunni, Skjöldur var að keppa í fótbolta svo ég ákvað að skreppa líka og tók yngrideildina með. Á Glerártorgi kíktum við meðal annars í Lindex sem er ekki frásögu færandi fyrir utan það að Frosti bað mig að spyrja afgreiðslukonurnar hvort það væru seldir hvítir kirtlar í búðinni, það er alveg sama hvað ég segi við hann, honum finnst enginn munur á því hvort hann sé úti að leika í fótboltabúning eða hvítum kirtli eins og jesú. Ég verð að viðurkenna að ég er aðeins orðin forvitin um hvernig hann myndi leika sér ef hann fengi nú hvítan kirtil ;)

Við fórum á Hamborgarafabrikuna, krakkarnir voru auðvitað eins og englar og voru mjög sátt við litlu smáborgarana sína. Við kíkjum alltaf í jólahúsið þegar við förum norður, Bæron var svo spenntur yfir öllu í garðinum við jólahúsið að hann náðist varla á mynd, ég náði einni mynd af honum óhreyfðum. Myrru fannst ég ekki sniðug þegar ég var að tala um myllu þarna í garðinum og leiðrétti mig og sagðist heita Myrra ekki Mylla! svo skemmtilegt hvað krakkarnir eru skýr og skynsöm :)

Við keyptum ís á leiðinni út úr bænum og það getur bara verið ansi flókið ferli, ég átti í stórum vandræðum með að muna hvernig ís hver og einn vildi og koma því rétt frá mér til afgreiðslustúlkunnar, sem þurfti svo að koma þessu rétt til okkar, við vorum farnar að skelli hlægja þarna í bílalúgunni :D ef þau væru nú bara öll með eins smekk ;)

Þegar við komum heim um kvöldið var Albert búinn að setja trampólínið saman, krakkarnir hljóðuðu af ánægju og heyrðist frá einum að þetta væri besti dagur lífs hans :) Hann segir þessa settningu ansi oft og er núna búinn að breyta henni í, þetta er einn af bestu dögum lífs míns ❤ ❤

Bæron Skuggi að hjálpa pabba sínum að setja saman borðið sem ég keypti ;)

Við getum allavega núna setið úti, við borð, og fengið kaffitíma úti... :D

Myrra alsæl og syngjandi með Frosta á trampólíninu

Frosti Sólon "Messi" dregur alla sem koma til okkar með sér í fótbolta, hér er hann að kljást við Sunnu stóru systur ;)

Hvorugt þeirra gefur neitt eftir :)

Sunna kallaði til tvo markmenn sér til aðstoðar :D

"Mylla" í jólahúsinu og allir tilbúnir fyrir myndatöku haha ;)

Myrra bankar á litla húsið, hvort einhver sé heima. Henni fannst þetta æðislegt

Bæron var ekki alveg eins þolinmóður og ætlaði bara að æða inn :)

Bæron slakur í mínútubrot, eina myndin sem náðist óhreyfð, annars voru þau flest öll á hlaupum að skoða og njóta og myndavélinn átti ekki séns á að fókusa á eftir þeim :)

Á Fabrikunni

gormar ;)

Stelpurnar sendu mér myndir sem verða að fá að fylgja með ❤ Fanney kíkti á Perlu í Color Run verslunina í Smáralid, Perla var að vinna með Color Run teaminu alla vikuna, elska þessar sætubínur

Mínar ;)


bottom of page