top of page

Vikan


Síðastliðin vika er búin að vera ansi mögnuð, sannkölluð gleðiuppskeruvika með mörgum stórum viðburðum.

Við meðal annars fórum í kaffi til forseta okkar á Bessastaði. Það er alveg með eindæmum hvað við þjóðin eigum flottan forseta.

Jasmín fattaði eftir heimsóknina að hún gleymdi að segja Guðna að þau eiga afmæli sama dag, sem henni þykir ansi skemmtilegt.

Frosti var hins vegar með allt á tæru og naut þess að fá að tala við Guðna og spyrja hann hinna ýmsu spurninga, jafnvel aðeins of margra spurninga.

Ég heillaðist upp úr skónum af rúmgóðri borðstofunni og borðstofuborðinu sem rúmaði alla til borðs og mun fleiri til. Einnig var ég heilluð af framkomu forsetans og starfsfólksins.

Heimsóknin var mjög áhugaverð og skemmtileg og þykir mér mikill heiður að hafa fengið heimboð á Bessastaði.

Við Myrra fórum einnig í vikunni upp á gjörgæsludeild og þökkuðum dásamlega starfsfólkinu þar fyrir okkur. Ég er starfsfólkinu innilega þakklát og það var yndislegt að geta farið með Myrru gangandi, heilbrigða, brosandi og í kjól inn á gjörgæslu, þakkað fyrir okkur og gengið út aftur.

Svo fallegur sigur og bati.

Ég lét prenta mynd af Myrru, frá því núna í ágúst, framan á kort og skrifaði í það nokkur þakkarorð.

Þar sem við náðum bara að hitta nokkra í heimsókninni þá fannst mér skemmtilegt að geta komið þakkarorðum til allra og með mynd af skottunni sem sýnir Myrru fríska og hrausta í fjallgöngu.

Við fórum einnig fram og til baka norður í vikunni til að halda upp á afmæli Frosta sem á afmæli 22. júlí og Jasmínar sem á afmæli 26. júní. Frosta afmæli var frá klukkan 11 - 14, hann fór síðan til Blönduóss strax eftir afmæli að keppa í fótbolta.

Afmæli Jasmínar var haldið strax á eftir Frosta afmæli frá klukkan 14 - 17. Náðum við því að rimpa afmælunum af á sama degi í líka þessu dásemdar veðri.

Það voru ekki flókin veisluföngin í afmælunum og hafði ég allt eins auðvelt og hægt var en einnig þannig að krökkunum litist á þetta. í Afmælunum var ég því með pylsur, afmælistertu, popp og krap.

Mér finnst algjör snilld að hafa krap í krakkaafmælum og allir mjög sáttir með það.

Við afmælishöldin fattaði ég enn og aftur hvað höfuðið á mér er ekki alveg að virka rétt þessa dagana. Ég frestaði afmælum til að Myrra gæti notið þeirra með okkur en kveikti ekki á perunni að auðvitað hefði hún verið alsæl með að fá krap þó aðrir hefðu fengið eitthvað meira.

Krap og ísterta er því bæði eitthvað sem ég hefði getað haft í afmælum og hefði getað sleppt því að fresta þeim og eiga allt eftir núna hahaha.

Ég á enn eftir að halda upp á tvö afmæli í bænum sem mér tekst vonandi á allra næstu dögum.

Perla Ruth verður síðan 22 ára 21. september og svo er afmælispása alveg fram í janúar :)

Myrra og Bæron lærðu að hjóla án hjálpadekkja í fyrradag.

Þau eru búin að vera á jafnvægishjólum núna í einhvern tíma og langaði mig að vita hvort það hefði áhrif varðandi að byrja að læra að hjóla á reiðhjóli án hjálpadekkja.

Það hafði greinilega mikið um það að segja því ég rétt ýtti þeim af stað og þau bara hjóluðu eins og þau höfðu ekki gert neitt annað. Þau gátu meira að segja ýtt sér og tekið af stað sjálf aftur eftir að hafa stoppað.

Svo já ég mæli hiklaust með jafnvægishjólum og síðan hjólum án hjálpadekkja þar á eftir. Algjör snilld.

Það var einnig loksins fótboltamót hjá Eldon í vikunni. Þvílík gleði hjá honum og er hann strax farinn að telja niður í næsta mót.

Sóley tók lokapróf í sumaráföngunum sínum, náði þeim auðvitað og er því loksins komin í frí frá námi áður en hún byrjar í skólanum í næstu viku hahaha.

Ótrúlegur dugnaðarforkur þessi skvísa mín.

Við fengum nýja bílinn okkar afhentan í dag sem veitti mér mikla gleði og létti. Ég er innilega þakklát öllum þeim sem lögðu okkur lið við söfnun upp í bílakaup. Án ykkar ætti ég ekki bíl í dag svo takk takk innilega af öllu hjarta ♡♡ Það er dásamlegt að vera komin aftur á eigin bíl, níu manna og með skotti :)

Svo toppaði það alveg daginn hjá Myrru að það fylgdi súkkulaði með nýja bílnum hahaha, ein mjög sátt.

Já ég held að þetta hafi verið það helsta frá vikunni.

Síðasta sumar lét ég taka gamla bílinn minn í gegn svo hann myndi endast mér í einhver ár til viðbótar. Hann var nefninlega mjög rúmgóður, fjórhjóladrifinn, ótrúlega góður í hverslags færð svo við komumst alltaf hvert sem var.

Tryggingarnar sáu bara gamlan verðlausan bíl og fékkst því lítið fyrir hann frá tryggingunum. Fyrir mér var bíllinn svakalega mikilvægur, mjög mikils virði og bráðnauðsynlegur fyrir okkur.

Þetta fór nú allt vel og erum við mjög ánægð með nýja bílinn.

Málinu og rannsókn slyssins er enn ekki lokið en hlýtur að fara að ljúka.

Myrra fer í skoðun á kjálka núna í lok ágúst og fáum við þá vonandi að heyra að allt sé eins og það eigi að vera og að henni sé óhætt að borða allt. Hingað til hefur hún ekki mátt borða neitt seigt, hart, brauðskorpu eða því um líkt. Bíðum við því spennt eftir að fá okkur Dominos pizzaveislu um leið og hún fær grænt ljós.

Ég er mikið spurð um líðan Myrru og hún er alveg orðin hún. Hún er orkumikil, heilbrigð, hraust og kát. Hún leikur sér og gerir allt eins og áður þó við forðumst sumt eins og til dæmis trampolin og annað sem býður upp á meiðsli. Hún er skiljanlega næmari og aumari fyrir í andlitinu en meiðsli hennar eru frekar seinni tíma vandi hér eftir.

En við förum til læknis á morgun til að láta klára að lappa aðeins upp á okkur eins og verður við bjargandi ;) haha

Skjöldur og Frosti fara síðan austur um helgina að keppa í fótbolta.

Skólinn er rétt að skella á aftur hjá krökkunum og ég byrja í starfsnámi á geðsviði Landspítalans.

Mögnuð þessi vika og spennandi tímar framundan ♡♡


bottom of page