Sumarbústaðarferð
Bæron losnaði við gifsið á miðvikudaginn í síðustu viku og var enn einhver smá bútur af gifsinu óbrotið eftir litla brjálæðinginn :)
Fóturinn á Bæron er heill og hleypur Bæron um eins og ekkert hafi í skorist.
Myrra fór einnig í eftirlit og myndatöku og lítur allt vel út hjá henni líka. Gert er ráð fyrir að vírarnir verði teknir hjá henni 23. júlí :)
Myrra spurði mig í gær hvort hún mæti borða venjulegan mat þegar vírarnir væru farnir og allt batnað. Elsku skottan orðin pínu leið á fljótandi fæði og mega ekki borða neitt skemmtilegt.
Fórum við mæðgur því í það að skrifa lista yfir hvað hana langar til að borða fyrst.
Fyrst nefndi hún pylsu með sinnep og tómatsósu, síðan langar hana í kjúklingalegg, slátur með sykri, melónu, pizzu, franskar, kökur, jarðaber og kanilsnúð. fínt jafnvægi í þessu hjá henni hahaha
Þegar gifsið var farið og staðfesting var komin á að allt liti vel út hjá Myrru þá fór ég með börnin mín tíu og eitt barnabarn í sumarbústað síðasta miðvikudag.
Ég hafði einnig fengið símtal á þriðjudeginum og var mér boðið drauma sumarstarfið sem ég hafði sótt um fyrir sumarið. Það vantaði starfsmann í starfið strax og hefði ég mátt byrja daginn eftir, það tók alveg á að þurfa að hafna starfinu sem mig innilega langaði í.
Það var því alveg dásamlegt að fara smá í burtu í sumarbústað, sleikja sár sín og ná bata hahaha
Við fórum í einn fallegasta sumarbústað landsins og heyrðust bara andköf og lof í bústaðnum fyrstu mínúturnar eftir að við stigum inn fyrir.
Glæsileiki í hverju herbergi, allur búnaður til staðar og mikið meira en það.
Heitipotturinn var vel nýttur og held ég að krakkarnir hafi farið í pottinn fjóru sinnim á dag.
Myrra er mikið búin að vera að spá í meiðslum sínum og slysinu og spurði mig, þegar við vorum á sjúkrahúsinu, af hverju við værum hérna, hvað við höfðum verið að gera og hvað kom fyrir.
Ég skýrði út fyrir henni að við hefðum verið að kíkja á litla frænda, hefðum síðan keypt Dominos pizzu og á leiðinni heim höfðum við lent í árekstri.
Ég sagði henni að við hefðum öll farið á sjúkrahúsið og gat ég sýnt henni myndir, sem ég hafði fengið sendar, af öllum krökkunum á sjúkrahúsinu. Einnig gat ég sýnt henni örið á enninu á mér og talað um að Bæron væri í gifsi.
Myrra tók þessu mjög skynsamlega og skildi alveg hvað ég var að segja.
Rétt stuttu síðar fer Myrra að gráta.
Ég var þá tilbúin að fara í einhverjar frekari útskýringar og ræða um þetta en byrja á að spyrja hana hvað væri að. Segir hún þá grátandi mjög einlægt og sárt „Ég fékk enga pizzu!“.
hahaha elsku dásamlega skottan mín.
Ég var því fljót að breyta sögunni og sagði að það hafði einmitt ekki verið hægt að kaupa pizzuna og að við hefðum bara keyrt heim :)
Myrra er mikið saumuð innan á kinnum og vör og finnur þó nokkuð til í örunum. Líklega hefur taug í vörinn eitthvað skaddast sem gerir erfiðara að stjórna vörinni.
En hún er farin að geta drukkið úr röri með öðru munnvikinu og farin að geta blásið sápukúlur ♡
Myrra spurði mig einnig í fyrrakvöld af hverju hún væri með svona mikið af sárum en við hin bara með eitt og eitt. Elsku skynsami snillingurinn minn ♡
En annars er Myrra þó nokkuð létt á þessu öllu saman og finnst bara nokkuð töff að hún er búin að missa tönn, eins og Eldon sem er sex ára :)
Perla bún að koma sér upp þó nokkru stuðningsliði, næst á dagsrá er að fá boli á Skjöld og Frosta með réttu númeri hahaha, allir númer 50 í Team Perla
Sumarbústaðurinn er rétt hjá Selfossi, mjög bjartur, hátt til lofts og glæsilegur.
Það kom ekki á óvart að það var rigning á meðan við vorum í bústaðnum en það gerði ekkert til þar sem það voru ýmis spil og leikföng á staðnum svo krakkarnir gátu alveg gleymt sér í leik eða í heitapottinum.
Ég get ekki dásamað bústaðinn og dvöl okkar þarna nægilega og vona innilega að við náum að kíkja við aftur.
Nóg var af svefnplássi, stór pallur með garðhúsgögnum, grill, þvottavél, hljóðlaus uppþvottavél og fullt af ýmsu sem maður þarf á að halda en gleymir að kippa með sér þegar farið er í bústað eins og til dæmis matarolía og krydd :)
Svo dásamlega kósý, hlýlegt og glæsilegt allt
Eitt herbergið var með nokkrum dótakössum undir rúmi og öðrum kössum fullum af spilum, sem kom mér skemmtilega á óvart.
Sturta og bað, allt svo glæsilegt
Þegar heim var komið þá hafði það gerst eftir þennan óvenjulega júní mánuð að í fyrsta skipti, eftir að ég flutti hingað 1. september, að þvottadallurinn hjá mér var yfirfullur hahahhah.
Ég hef sem sagt oft verið spurð út í þvottamál hjá okkur fjölskyldunni. Mitt trix til að drukkna ekki í þvotti er að hafa lítinn óhreinatausdall og ganga strax frá þvottinum.
Ef ég stafla samanbrotnum þvotti til hliðar og ætla að ganga frá síðar þá getur sá stafli alveg verið þar á sama stað í nokkra daga.
Ég þvæ eina til tvær þvottavélar á dag og þvotturinn er orðinn þurr daginn eftir.
Þurrkarann nota ég bara fyrir handklæði, rúmföt og dún. Mér finnst föt verða litlaus, muskuð og ljót ef ég set þau í þurrkara.
Og jebb ég var í alvöru að pósta hér mynd af þvottasysteminu hjá mér hahaha, alveg dásamlegt.
Þessa dagana erum við svo bara að reyna að koma okkur í einhverslags rútínu. Ég og Frosti eigum afmæli í júlí, áður en vírarnir verða teknir hjá Myrru.
Það verða því orðin fjögur afmælin sem haldið verður upp á þegar Myrra má fá kökur.
Mögulega næ ég að halda bara eina heljarinnar veislu. Hugmyndir af þægilegum veitingum fyrir garðparty eru vel þegnar :)
Og elsku Myrra spurði mig hvort að ég vildi óska mér með demantinum sínum.
Ég þáði það og sagði upphátt að ég óski þess að henni batni sem allra fyrst.
Myrra dásamlega gyðjan mín tók síðan demanntinn og sagði að hún óski þess að það komi fullt af blómum, á gras og í tré og það komi mikið mikið sumar og sól, ekki bara grenjandi rigning.
Svo nú er bara að trúa og óskir okkar beggja munu rætast ♡♡