top of page

Njóta augnabliksins


Hversdagsleikinn er tíminn sem þarf stundum að leggja meiri áherslu á að njóta, þar sem hann er daglegur.

Ekki eingöngu bara að hlakka til þess sem er framundan heldur að njóta núsins, hversdagsleikans og augnabliksins.

Þetta eru áherslurnar hjá okkur fyrir sumarið, já og bara alltaf :)

Við erum alltaf að reyna að poppa upp hversdagsleikann og brjóta hann upp með ýmsum litlum atriðum og tilbreytingu sem oftast innihalda fíflagang og hlátur.

Ég keypti þennan æðislega garðbekk í Rúmfatalagernum á 2800 krónur. Æðislegt að geta borðað við hann úti og leikið. Krökkunum finnst svo skemmtilegt að fá að borða úti.

Ég keypti einnig litla uppblásna sundlaug sem hægt er að hafa á svölunum til að sulla í þegar við fáum sólardaga.

Ég mun reyndar þurfa að ausa vatninu í vaskinn eftir notkun því ekki er hægt að láta vatnið bara gossa fram af svölunum, en þess vegna keypti ég bara litla sullulaug :)

Við blásum sápukúlur á leið í leikskólann, krítum sól eða annað á steina og stétt á leiðinni, hjólum, eða löbbum og spjöllum, með tyggjó ;) Það er mjög spennandi að mega hafa tyggjó á leiðinni en auðvitað henda því um leið og við erum komin í leikskólann.

Já og það er einnig mjög skemmtilegt að blása sápukúlur í baði.

Sápukúlur gera daginn alltaf skemmtilegri :D

Yngstu deildinni minni finnst æðislegt að við eigum íspinnaskúffu í frystinum og eru alltaf til íspinnar.

Við eigum líka tyggjóskúffu sem er alltaf full af extra tyggjópokum hahaha.

Litlu rúsínupakkana er einnig mjög sniðugt að eiga til, popp og auðvitað eru niðurskornir ávextir alltaf skemmtilegir eftir leikskóla. Litlu gormunum finnst meira að segja skemmtielgt að fá brauð í nestispoka.

Það þarf oft svo lítið til til að poppa aðeins upp hversdagsleikann hjá krökkum.

Ég dreifi stundum litríku kökuskrauti -sprinkle á jógúrt og skyr hjá krökkunum, gerir jógúrtina svo litríka og skemmtilega.

Fyrir grunnskólabörnin hef ég pakkað nestinu inn í álpappír og sett krulluband utanum eins og á pakka.

Sett lítinn miða með fallegum skilaboðum með nestinu í nestisboxið.

Stungið trúða og fána partýpinna í nestið.

Sett límmiða á banana og epli :)

Bara svona smá auka gerir oft svo mikið og krakkarnir muna eftir svona uppátækjum mínum.

Og fyrsta skrefið til að njóta hversdagsleikans er að hægja aðeins á sér, vera í núinu og njóta augnabliksins!

Ég á það alveg til a vera til dæmis að spila með krökkunum og fatta að ég er með hugan við eitthvað allt annað, jafnvel einhverjum planleggingum fyrir næstu daga. En guð hvað það verður allt glaðlegra og skemmtilegra við að vera innilega með hugann við leikinn með þessum gormum mínum og horfa á leikinn út frá þeim :)

Gott dæmi um hvað börn sjá hversdagsleikann fallega:

Ég var að labba(á hlaupum) með Myrru í fanginu niður í miðbæ Reykjavík. Ég var að drífa mig í að komast á áfangastað, þegar dásamlega skottan mín segir „vá hvað það er góð lykt hérna“. Þá áttaði ég mig á að ég var á svo mikilli hraðferð að komast á áfangastað til að njóta að ég var næstum búin að missa af allri ánægjunni sem fylgdi því að komast á staðinn.

Ég hægði strax á mér og horfði á skottuna mína sem var skælbrosandi og dásamleg í fanginu á mér. Restina af ferðinni labbaði ég, naut þess að vera með dóttur minni og hennar dásamlega hlátri og upplifði miðbæinn með hennar augum.

Og það var alveg rétt hjá henni, það var æðisleg matarlykt í loftinu og endalaust margt skemmtilegt að sjá og heyra í kringum okkur.

Já og stórviðburður í fjölskyldunni sem er sko tilefni til að fagna og njóta,

Fanney Sandra eignaðist son ♡

Ég var því mætt upp á Akranes um morguninn 1. júní til að hitta lítið ömmugull.

♡♡

Hægja aðeins á sér, njóta augnabliksins og hversdagsleikans.

Sjálfsálit barnanna styrkist, samband við foreldra styrkist og margar æðislegar minningar verða til. Lífið er núna ♡♡


bottom of page