top of page

Jasmín Jökulrós 6 ára


Litla dísin mín hún Jasmín Jökulrós varð 6 ára núna 26. júní og hélt upp á afmælið með því að bjóða bekknum sínum og vinum. Henni fannst tilhugsunin um að halda upp á krakka afmæli svo spennandi, fyrsta krakka afmælisboðið sem hún heldur :)

Jasmín er dásamleg, svo skemmtilega einlæg og þakklát og sýnir það svo innilega :)

Hún elskar að spila, lesa, föndra og drekka heitt kakó :D og voru viðbrögð hennar alveg í takt við það þegar hún opnaði pakka með spilastokk og kakóbolla :)

Þarna sló ég þrjár flugur í einu höggi ;) Jasmín fékk fallegan nýjan bolla sem hún er alsæl með undir kakóið sitt, ég losna við að horfa upp á kakó drukkið úr jólabolla um mitt sumar og ég fæ að njóta þess að hafa þennan dásamlega fallega Moomin bolla í eldhúsinu hjá mér þar sem ég smitaðist af stórhættulegu Moomin æði!

Við vorum með hin ýmsu plön fyrir garðveislu en það var endalaus rigningraspá svo við breyttum bara plönum og héldum upp á daginn 29. júní.

Það er búin að vera mikil afmælisstemning og spenningurinn í sumar hjá Skildi, Jasmín og Frosta og Eldon, sem á afmæli 30. janúar tekur jafn virkan þátt í þeirri gleði. Honum finnst þetta allt æðislegt og er búinn að tína til bestu afmælis hugmyndirnar að hans mati, og panta að þær megi líka vera í hans afmæli ;)

Svo kom hann til mín núna um daginn með spenntar greipar og sagði " mamma, gerðu það, má ég eiga afmæli á eftir Jasmín" ❤ ❤ elsku kúturinn! svo stóð hann bara fyrir framan mig, skælbrosandi að springa úr spenningi :)

Þetta er ekki sanngjarnt að þurfa að eiga afmæli í janúar með garðinn á kafi í snjó, þegar hin þrjú fá að eiga afmæli á sumrin!

Hann á reyndar líka slatt af systkinum sem eiga afmæli í janúar og febrúar 8 af 13 systkinunum eiga afmæli þar í byrjun árs ;)

Jasmín Jökulrós 6 ára <3

❤ ❤

Þar sem öllum plönum var breytt vegna veðurs, kaffitíminn varð að vera inni og lítill fyrirvari á veislunni þá datt mér auðvitað í hug að prófa fullt af einhverju nýju sem mig hefur langað til að prófa en hefur vantað að það séu nógu margir á heimilinu til að borða tilraunaverk mín, því mér dettur mjög sjaldan í hug að prófa bara eitthvað eitt, ég verð oftast að prófa allt á sama tíma sem ég hef safnað upp að mig langi til að prófa! :D

Smjörkremið mitt klikkar aldrei en núna datt mér í hug að prófa nýja uppskrift þar sem hvítusúkkulaði er blandað við, fjólublátt súkkulaðipopp, sykurpúða-frootloops-kubba, litlar cakepops maríubjöllur, sem urðu ekki alveg eins og þær áttu að vera svo þetta urðu bara litlar súkkulaðihúðaðar maríubjöllukökur ;) og svo litlir kleinuhringir.

Það eina sem ég hafði því gert áður var súkkulaðikakan og muffinskökurnar undir nýja smjörkreminu ;)

Allir tilbúnir í myndatöku ;)

Smá svona Húsið á sléttunni blær yfir þeim systrum :D

Krakkarnir voru svo æðisleg! við Jasmín vorum komnar með hugmyndir að leikjum og hvað hægt væri að gera í afmælinu en þau voru strax svo upptekin í leik að ég ákvað að vera ekkert að trufla þau, algjörir snillingar þessir ungu flottu krakkar.

Jú ég rétt náði að smella þeim í piparkökuskreytingar :D þau fengu svo kökurnar sínar með sér heim :)

Ég sagði foreldrunum að þetta væru afgangar síðan um jólin sem ég væri að koma út og sendi börnin með heim í nesti og við aðra grínaðist ég með að það væri bara snilld að fá svona mörg börn til að skreyta piparkökurnar fyrir næstu jól :)

En auðvitað voru þetta nýjar piparkökur sem ég var nýbúin að baka, börnin mín elska piparkökur svo þær eru alveg bakaðar oftar hér en bara í desember, ég nota bara sumarlegri form ;D

Smá myndasyrpa af Jasmín og dásamlegu viðbrögðum hennar :)

Spilastokkur :)

Og Mommin bollinn :D

Yndislega 6 ára kakó dísin mín


bottom of page