top of page

Heilluð af grísku eyjunni Santorini

  • Writer: Sigrún Bibbi
    Sigrún Bibbi
  • May 29
  • 10 min read

Updated: May 30


Mig hafði langað að fara til Santorini í svolítinn tíma og núna gafst mér færi sem ég greip. Ég var búin að skila öllum verkefnum í sérnámi mínu sem ég hef verið í undanfarin tvö ár, börnin voru hjá föður sínum í sauðburði og mér gafst smá sveigjanleiki í vinnu. Ég var einnig nýbúin að panta mér kjól sem myndi nýtast í sólarlandaferð svo ég þurfti eiginlega að búa til tilefni til að vera í honum. Tækifærið var því gripið og farin var vikuferð til Santorini með engum fyrirvara. Ég hefði ekki vilja vera styttri tíma á eyjunni en hefði alveg verið til í að vera þar í tvo til þrjá daga til viðbótar. Flugið til Santorini var með millilendingu í London en flugið heim var með millilendingu í Mílano.


Ég var í raun lítið búin að kynna mér eyjuna annað en að skoða fallegar myndir frá eyjunni á samfélagsmiðlum. Ég var þó engan vegin áttuð um hve dásamleg eyjan er í raun. Hótelin á eyjunni eru einnig hvert öðru fallegri á myndum sem ég sá á bókunarsíðum. Ég er með „hótelblæti“ og var því ekki til í að vera á einu og sama hótelinu allan tímann þegar svo mörg falleg hótel eru í boði. Þegar ég flaug út var ég því með tvær nætur bókaðar í Fira, höfuðborginni og ætlaði svo að sjá til hvar ég vildi gista þegar ég hefði áttað mig aðeins á eyjunni.  

 

Ég kolféll fyrir eyjunni strax við lendingu og var hugfangin af allt og öllu. Flugvöllurinn er mjög smár, engin komufríhöfn og var ég komin í gegnum flugstöðina áður en ég náði að átta mig. Þar biðu leigubílstjórar með nöfnum á skiltum og var ég með bókaðan leigubíl á hótelið. Ég var smá vör um mig í upphafi þar sem engin merking var á leigubílnum og maður hefur heyrt ýmsar sögur ásamt því að ég vissi ekkert hvernig samfélagið var á eyjunni. Leigubílstjórinn reyndist mjög almennilegur og gaf gagnlegar upplýsingar um eyjuna ásamt þess að hringja á hótelið á leiðinni og lét vita af komu.

 

Við komu á hótelið kom gestgjafinn út á móti og var jafn dásamleg og bílstjórinn. Ég var hugfanginn af hve fallegt fókið var og þjónustulundin mikil. Það voru allir á eyjunni boðnir og búnir til að aðstoða á allan hátt. Ég var með tengingu við hótelin í gegnum Booking og Whatsapp og buðu gestgjafar að velkomið væri að heyra í þeim ef eitthvað væri eftir að maður fór af hótelinu.

 

Fyrsta hótelið Eternity Suites var rétt við miðbæinn, í göngufæri. Heitur pottur til einkanota var með því herbergi og æðislegt að geta farið í heitan pott á kvöldin og nýtt daginn í að skoða miðbæinn. Það var ekki morgunverður á þessu hóteli en það var bakarí, veitingastaður með morgunverði og matvörubúð rétt við hótelið. Fyrsta morguninn vaknaði ég upp við allkröftulegan jarðskjálfta, 6,7 á richterskvarða, og var sem ég lægi í rafmagnsnuddrúmi því rúmið skalf það mikið. Ég kippti mér ekki upp við það heldur var það bara áhugaverður partur af upplifun eyjarinnar.






Umræddur sólarlandakjóll sem ég hafði pantað mér sem var ástæða þess að ég bjó til tilefni til að geta klæðst honum :)


Ég skoðaði mest allan miðbæinn og eru göngugöturnar þar skemmtilegar og skarast allstaðar saman. Ég hafði séð mjög svo girnilega ísbúð í byrjun göngu sem ég ætlaði að koma við síðar um daginn sem ég átti svo í vanda með að finna aftur því ég var búin að ganga út um allt og mundi ekkert hvaða leið ég hafði farið. Afgreiðslu fólk var búið að marg heilsa mér og við farin að hlægja þegar ég gekk fram hjá þeim endurtekið. Jújú það voru ísbúðir á hverju horni en mér fannst ísinn í þessari tilteknu ísbúð mest girnilegur og langaði bara í hann.


Mér fannst einnig svo dásamlega skemmtilegt að geta verið öðru megin á eyjunni og horft niður til sjós og gengið nokkur skref og þá sá ég til sjós hinu megin eyjar. Einnig staðreyndin að það er hægt að ganga þarna um allt í pinnahælum sem ég vissi ekki fyrir og var í flatbotna skóbúnaði, sem gerist annars aldrei. Ég hafði nefninlega áður lent í smá vanda, mætt til Rómar í pinnahælum og það voru mjög svo ódömuleg skrefin sem ég reyndi að taka þar til að festa ekki hælana á milli steina á götum og stígum þar. Svo þetta eru mjög gagnlegar upplýsingar að ég get verið í hælaskóm næst þegar ég fer til Santorini.






Ég var með bílaleigubíl næstu fimm daga og var komið með bílinn upp að hótelinu og þjónustan frábær. Ég hugsaði að ég myndi aldrei sætta mig við að keyra um á svo litlum bíl sem þessum heima en þarna var kostur að keyra um á litlum bíl því götur voru sumar þröngar og bílastæðin mjög lítil og takmörkuð. Bílnum var svo skilað á flugvellinum og engin vandkvæði með bílaleiguna og bensínstöðvar víða.


Það var sama hvað ég gerði eða skoðaði á eyjunni það var alltaf eitthvað sem kom skemmtilega á óvart, var krúttlegt, ánægjulegt, langt framar vonum og væntingum og endalausar krúsídúllur. Ég er svo hugfangin af þessari paradísareyju í alla staði. Ég var ekki með nein plön eða væntingar hvað mig langaði að gera eða sjá á eyjunni og réðst það bara frá degi til dags, þess sem ég sá í kring eða því sem mælt var með á hótelunum að skoða í kring.


Næsta hótel, Sophia Luxury Suites, var í Imerovigli sem er rétt við miðbæinn og dásamlegt að ganga í gegnum miðbæinn meðfram klettabrúninni að hótelinu. Mig langaði að prófa hella hótel í klettabrún og stóðst það hótel væntingar. Það er svolítið erfitt að finna bílastæði þegar gist er á hótelum í klettabrúnum og þarf þá að ganga aðeins lengra, sem breytti í raun engu því veðrið lék við mann.


Það var smá völundarhús að finna hvaða stíga átti að ganga að hótelinu því stígarnir eru þvers og kruss og þrep upp og niður og sumstaðar töldust þrepin varla til þrepa. Ég hafði sem betur fer pakkaði mjög létt og var bara með eina litla hliðartösku með farangri svo ég átti auðvelt með að komast um. Ég hefði ekki boðið í að burðast um með stórar ferðatöskur í bröttum „þrepum“ í klettarhlíðunum sem lágu sum snarbratt.

Á þessu hóteli var ég með einkalaug sem var í hellismunanum sem kom mjög skemmtilega út. Komið var með æðislegan morgunmat á herbergið og voru veitingastaðir allt um kring. Hægt var að panta mat á herbergið, brúðardining og ýmsar útfærslur í boði af uppsetningu máltíða.











Rétt við herbergið var æðislegur veitingastaður sem heitir Mavro. Hann var ofarlega í brekkunni með útsýni yfir hlíðina og eins langt og auga eygði. Þar átti vel við „dinner whit a view!“. Það var glersundlaug á veitingastaðnum við barinn og sólbekkir og sé ég alveg fyrir mér vinkonuferð þangað.



Ég fékk þarna einnig svo skemmtilegan eftirrétt að ég var skælbrosandi af undrun og ánægju við hvern bita. Það var stökk þunn kaka efst og neðst og á topnum voru pistasíur. Það var appelsínubúðingur og ískaldur hvítur búðingur á milli og í einhverju var kanill svo þessi samsetning var ein bragðlaukaveisla. Ég fékk mér einnig sjávaréttapasta sem þjónninn mælti með sem var einnig mjög gott. Ég pantaði mér aldrei mat í ferðinni sem væri „save“ og kunnuglegt. Ég pantaði bara það sem þjónarnir mæltu með að væri sérkenni fyrir staðinn eða eyjuna svo allt var nýtt og óvænt.



Ég fór á sjókayjak á Svörtuströnd í Kamari að morgni til og sjórinn var sléttur, tær og dásamlegur.







Næsta hótel Kalestesia Suites, var í Akrotiri og var ég þar með einka heitanpott en sameiginleg sundlaug var fyrir fjögur herbergi auk almenningssundlaugar við hótelbarinn. Veitingastaður er á hótelinu og morgunverður borinn fram þar og einnig hægt að panta mat á herbergið. Veitingastaðir í kring buðu einnig upp á að sækja mann á hótelið og keyra aftur heim eftir máltíð.



Rauða ströndin var í nálægð við þetta hótel og var krúttlegheit yfir þeirri strönd. Í nálægð var einnig safnið með rústum elsta þorps heims sem hafði farið undir eldfjallaösku 1700 fyrir krist. Mjög áhugavert var að sjá það og í raun alveg magnað. Fyrir neðan safnið við sjóinn var æðislegt kaffihús Café Akrotiri, mjög huggulegt og var starfsfólkið frábært. Mögulega hafði það áhrif að ung þjónustustúlka sagði við mig að ég væri mjög falleg en annars var allt starfsfólki sem ég hitti á eyjunni mjög dásamlegt.


Þessi hluti eyjunnar, syðsti hlutinn, er ekki eins vinsæll eins og Oia á nyrðsta hluta eyjunnar. Oia er meira auglýst og vinsælli en þessi syðri er ódýrari og hótelin jafn glæsileg. Ég fór út að vitanum, alveg út á tanganum og sá á leiðinni eldri mann plægja lítinn skika, hann hélt með höndum um plóg sem asni dró áfram, sjaldséð sýn. Það er magnað að það er bara klukkutíma akstur á milli ystu tanga eyjarinnar. Eyjan er smá en samt svo stór og mörg heillandi þorp vítt út um allt.






Ancient City of Akrotiri





Næstu nótt gisti ég í himnaríki! Svítan sem ég vildi var uppbókuð en ég fékk þá næstbestu. Klárlega þegar ég kem aftur mun ég bóka þá svítu fyrirfram. Sú svíta er himnesk en svítan sem ég gisti í var einnig guðdómleg og ég elska að hafa sól og sundlaug á veröndinni. Að geta gengið út í sól í næði með einkalaug það er himneskt. Svítan er með heitumpotti og kaldrilaug. Útsýnið er dásamlegt og einstaka hljóð í asna heyrðist frá hlíðinni.


Morgunverður er í boði í loungsi hótelsins og er þar einnig í boði matur og drykkir frá morgni til kvölds. Hótelið er með vínekru svo þau bjóða einnig upp á eigið vín og þau gera einnig langbesta tiramisu sem ég hef smakkað hingað til, fullkomin samsettnig og alveg himneskt. Frá þessu hóteli er hægt að keyra upp á hæðsta topp eyjarainnar og fá panarama útsýni yfir eyjuna.





Sturtan var meira að segja æðisleg



Sky lounge með útsýni



Fanney Sandra dóttir mín átti 27 ára afmæli þegar ég var á Santorini og hef ég aldrei verið fjarri á afmælisdögum barna minna. Það er jú hugurinn sem gildir, hún var í huga mér á afmælisdaginn og ég heyrði að sjálfsögðu í henni í síma og keypti blöðrur og köku í tilefni afmælis hennar. Systur hennar fylltu að sjálfsögðu í mín skref heima og voru með afmælissnúll fyrir hana og svo hélt hún upp á afmælið með maka sínum.






Ég fór úr himnaríki yfir til Oia á gullfallegt hótel, Echoes Luxury Suites, þar sem veröndin fyrir utan íbúðina er laug með pöllum upp úr til að komast um. Guðdómlega fallegt og laugin náði fram að klettabrún við sjóinn sem var afar fallegt samspil.











Myndirnar sem ég hafði séð frá Santorini voru frá Oia en eftir að hafa skoðað mig um á eyjunni þá var svo margt annað á öðrum hluta eyjarinnar sem heillaði mun meira. Það var einnig aðeins erfiðara að fá bílastæði í Oia nálægt hótelum en annarstaðar á eyjunni.

Það byrjaði svo að rigna, sem gerist mjög sjaldan á eyjunni, og golan varð að roki. Morguninn eftir þegar veður var gengið yfir var allt þakið mold. Hótelstarfsfólkið í óða önn með háþrýstidælur að smúla allt hátt og lágt og afsökuðu ástandið í bak og fyrir að þetta væri mjög sjaldgæft ástand. Ég fékk margaldan morgunverð í rúmið og leyft að bóka mig út af herberginu tveimur tímum síðar. Veröndin á hótelinu er æðisleg í góðu veðri en ekki svo falleg þegar laugin er öll í mold. Öll eyjan var í mold, bílarnir þaktir og öll hótel í óða önn að smúla og tæma laugar og þrífa.







Síðasta hótelið var í Éxo Goniá nálægt flugvellinum, reyndar var allt í nálægð við flugvöllinn, og hafði ég séð fyrir mér að liggja bara í laug og njóta sólar síðasta dagsins þar sem rok og rigning hafði verið deginum áður. Laugin á hótelinu var þá enn hálf tóm þar sem verið var að tæma hana og þrífa út af veðrinu deginum áður og yrði tilbúin seinnipartinn.

Köld laug myndi ekki þjóna mér seinnipart dags þegar sólin færi að setjast svo það hótel var endurgreitt. Ég ætlaði að finna annað hótel sem búið væri að þrífa laugina eða sem væri með heitum potti sem kæmi betur að notum seinnipartinn. Hóteleigandanum þótti þetta mjög miður og vildi endilega aðstoða og heyrði í næsta hóteli rétt hjá þar sem hann vissi að var með heitum potti og hlýf yfir svo moldin næði ekki í pottinn. Ég ákvað að þyggja það þar sem sama hvert ég myndi leita þá væru líklega flestar laugar í mold og þrif í gangi.

Aecon Suites reyndist einnig dásamlegt hótel á sinn hátt eins og öll hin.





Rétt hjá hótelinu var krúttlegur veitingastaður Metaxi Mas og var þar mælt með steik með vintantosósu sem væri þeirra sérkenni. Það var fyrsta steikin sem ég bragðaði í ferðinni og þessi sósa var eitthvað annað. Ég drekkti hverjum kjötbita í sósu og þurfti að óska eftir að fá ábót því ég átti hálfa steikina eftir. Þjónninn sagði að það myndi taka fimmtán mínutur að fá sósuna og það var svo þess virði að leyfa grilluðu nauta fille að kólna og borða það kalt með þessari guðdómlegu sósu!





Útsýnið úr heitapottinum


Dekurdísin ég fann út að ég vildi að hótelherbergi mín væru með einka kaldrilaug sem hægt væri að njóta yfir daginn og einka heitum potti svo hægt væri að njóta að kvöldi. Mismikið næði er á veröndum fyrir framan herbergin þó myndir hótela sýni það ekki á heimasíðum sínum. Á hótelum í klettabrúnunum þá eru stígar um allt og gengið er upp við laugar annara. Það skiptir einnig hvort maður sækist eftir morgunsól eða kvöldsól, hvernig hótelið snýr á eyjunni og hvar það er staðsett í klettahlíðinni hvenær sólinn nær á veröndina.

Hótelin höfðu öll sín æðislegu sérkenni og spiluðu öll sitt hlutverk eftir því hvaða staðsetningu ég vildi og hvernig mig langaði að nýta daginn. Hótelið sem ég mun þó dvelja á aftur og mögulega vera allan tímann þegar ég kem næst á eyjuna er Sky hótelið sem fær 12 í einkunn hjá mér í himneskri upplifun.

Ég glotti með sjálfri mér við myndatökur þegar ég hugsaði til þess að ég er 45 ára en ekki ungt módel því ég var mikið fyrir að mynda mig á þessari dásamlegu eyju. En ég veit akkúrat að ég er frábær á öllum aldri og vil eiga mynningar og fallegar myndir, sérstaklega frá svona paradís á jörðu.


Það var ríkjandi slaki á eyjunni, fólk vingjarnlegt og heiðarleiki. Allir svo dásamlegir, afslappaðir og lyklar verslana í skránni að utanverðu eins og ekkert væri sjálfsagðara. Veðurspáin átti að vera sól alla vikuna, sem reyndist ekki alveg, en hitinn var 22-31 gráða alla dagana nema þennan eina. Það var einnig þægileg gola alla daga fyrir utan þennan eina dag sem spáin klikkaði og það var rigning og allverulega hvasst. Það má ekki drekka kranavatnið á eyjunni og var drykkjarvatn í boði á öllum hótelum. Mikið var af lausagöngu katta og hunda og ekkert þeirra með ól. Sama hvar ég var stödd á eyjunni þá var engin Íslendingur í sjónmáli og engin íslenska heyrðist töluð.


Þessi heimasíða er löngu komin í dvala en ég mátti til með að deila þessu þar sem fyrirspurnir voru margar út frá myndum sem ég deildi á samfélagsmiðlum.

 


 

 


 


 

Komentáře


  • Facebook - Black Circle
  • Instagram - Black Circle
bottom of page