top of page

Muna að njóta líka


Þegar ég byrja að kvarta of mikið yfir tímaskorti, álagi eða magni verkefna framundan, þá minni ég mig á hvað ég er ofboðslega lánsöm og rík og hvað allt gengur í raun vel ♡

Ég hef sem sagt hugsað of mikið undanfarið hvað það er búið að vera mikið álag á mér síðustu vikur.

Ég er vön að reyna alltaf eftir bestu getu að hafa stjórn á aðstæðum og passa upp á að hafa viðráðanlegt álag til að allt gangi sem best. Ég vel og hafna verkefnum eftir því hvað mér finnst mikilvægt og hverju megi sleppa.

Núna eftir að skólinn byrjaði hjá mér og krökkunum þá er búið að vera óvenju mikið álag á mér og ekki allt verkefni sem ég get stýrt né stjórnað. Hef ég því verið að juggla ansi mörgum boltum á lofti og reyna að láta allt ganga upp. Sem betur fer veit ég að þetta er bara tímabil og að allt kemst í eðlilegt horf í næstu viku þegar fækkar um eitt stórt og tímafrekt verkefni.

En eins og staðan er núna þá er ég í starfsnámi, var að ljúka einu fagi í skólanum, er með sálfræðiráðgjöf hjá Háskólanum, mæti í handleiðslutíma þar, mæti á kynningar á starfsdeildum Landpítalans og er í gagnasöfnun fyrir mastersverkefnið mitt.

Þetta er allt mjög skemmtilegt og fræðandi en verkefnin eru ótengd en þó á vegum skólans og stangast tímarnir því oft á.

Er því búið að vera þó nokkuð púsluspil að púsla þessu öllu saman og saman við það að ég á nokkur börn líka sem þurfa svona hitt og þetta.

En þetta verður allt léttara í næstu viku þegar einu af þessum verkefnum lýkur.

Samfélagið setur vissar kröfur en við erum sjálfum okkur verst og getum sett mjög óraunhæfar kröfur á sjálf okkur, sem leiða að sjálfsögðu bara til óánægju yfir að geta ekki uppfyllt þær og vera ekki klónaður súperman á sama tíma...

Til dæmis er ég búin að vera mjög ósátt með að hafa ekki nýtt sumarið betur og lesið til að undirbúa mig fyrir haustið. Ég geri mér fulla grein fyrir að ég var að sinna mjög nauðsynlegum hlutum í sumar sem kröfðust alls af mér og mér gafst ekki tími til að hella mér í lestur. Samt finnst mér að ég hefði átt að geta gert bæði og sinnt öllu.

Ég myndi ekki setja þessar kröfur á annan og myndi hafa fullan skilning ef annar hefði verið í mínum sporum. Mér finnst oft að ég eigi að geta allt þó það sé engin raunhæfur möguleiki á þvi.

Til að halda öllu ánægjulegu og til að vakna hamingjusöm og hlakka til áframhalds þá skiptir svo gríðarlega miklu máli að hafa jafnvægi á vinnu, skylduverkum og ánægjustundum í lífinu.Og sérstaklega þegar álag er mikið og engin tími til neins þá þarf maður einmitt mest á því að halda að búa sér til smugur fyrir ánægjulegar athafnir.

Þar sem að ég er meðvituð um þetta allt, þá reyni ég að nýta hverja smugu til að gera eitthvað skemmtilegt.

Hringi í vini og fjölskyldu,

hitti vini í hádegishléi eða í kvöldgöngu,

mæti á handboltaleiki,

nýt viðburða með börnunum mínum

og reyni að koma tilbreytingu að við hvert tækifæri.

Perla mín varð 22 ára núna 21. september og Áki systursonur minn varð 2 ára 22. september. Skelltum við okkur því í smá heimsókn á Selfoss og slógum afmælum þeirra saman í eina veislu eins og við gerðum í fyrra.

Perla og Áki guðsonur okkar ♡

Áka leist nú ekkert allt of vel á þetta blys í fyrstu

Áki stóð sig eins og hetja í að opna pakkana og Perla hefur aldrei verið eins snögg að opna sína pakka þar sem Myrra og Bæron bókstaflega rifu upp pakkana fyrir hana hvern á fætur öðrum :)

Heimsóknin var æðisleg í alla staði, mjög afslöppuð og dásamlegt að bara vera og njóta

Sætubaunir

Ég hafði ekki einu sinni fyrir veitingunum en úr varð fínasta veisla. Fanney Sandra bjó til lakkrískubba og ostasalat sem er ómissandi. Jú ég skellti Betty Crocker brownies í ofn, dásamlegur frændi gaf okkur maregns og annað var aðkeypt og tilbúið :) Ég hafði ekki einu sinni tíma til að hugsa fyrir því að panta tertur eða aðrar kræsingar svo Helga systir sá um að panta afmælistertuna.

Ég á svo mikil gull

Sóley Mist og Líam Myrkvi ömmusnúður ♡

Við skelltum okkur á heimaleik Selfoss í Olísdeild kvenna, og á tvo vináttulandsleiki Ísland-Svíþjóð. Það er svo æðislegt þegar við getum mætt á leiki þegar Perla er að keppa.

Myrra og Bæron eru svo skemmtileg á leikjum þegar Perla er að spila og gera sitt besta til að ná athygli systur sinnar með því að kalla "hæ Perla" inn á völlinn :) Þegar við fórum á fyrstu leikina þegar Perla var að byrja í handbolta þá kölluðu systkini hennar nú bara inn á völlin "áfram Perla" :) Ekkert áfram Selfoss heldur bara áfram Perla ♡

Krakkarnir eru svo lánsöm að eiga flott eldri systkini. Mér þykir svo óendanlega vænt um hvað þau eru öll náin og dásamleg.

Og þar sem tíminn er bilað dýrmætur og þar sem tilbreyting veitir gleði og eykur orku ;) þá fór ég til Michelsen úrsmiða í Kringlunni og fékk mér guðdómlegt úr sem sýnir mér hvað tíminn er fallegur og dýrmætur.

Já og ég verð nú að segja frá dásamlegu systur minni henni Helgu sem býr á Breiðdalsvík, allt of langt frá mér. Hún er enn einn demanturinn í mínu lífi, þó hún sé í marg hundruð kílómetra fjarðlægð þá gerir hún sitt besta til að létta undir með mér og sendi mér tvívegis matarsendingu sem hún pantaði á netverslun Nettó!

Hún er algjör draumur þessi systir mín :*

Hún er alveg með það á hreinu hvað börnin fá í nesti og að ég elska fljótheitarmat sem ég get hent í ofninn eða steikt á pönnu. Læri, lasagna og kjúklingur er eitthvað sem ég get hent í ofninn á engum tíma, hakk og spaghettí, soðinn fiskur, grjónagrautur er einnig fyrirhafnar lítið og oft í matinn hér, allt sem þarf lítið að hafa fyrir og ekki mikið uppvask og frágangur eftir hahaha. Fer alveg að hafa tíma í eldamennsku og skemmtilega rétti.

Við höfum það sem sagt mjög gott, allt gengur ofboðslega vel hér hjá okkur og allir hjálpast að.

Og ég skrifa færslur hér inn á nóttunni þegar ég er hætt að halda einbeitingu við lestur og hætt tiltekt :D

♡♡


bottom of page