top of page

Slysið


Ég er búin að fresta því endalaust lengi að skrifa um slysið. En ég á afmæli á morgun 19. júlí svo ég ákvað að það væru fín tímamót til að gera þetta upp og horfa fram á við.

Rannsókn slyssins er ekki lokið svo ég get ekki tjáð mig um það. Ég er búin að reyna mikið að púsla öllu saman sem gekk á við slysið og eftir það, en enn eru of mörg spurningamerki eftir.

Málið er að ég fékk höfuðhögg og rotast við áreksturinn. Ég fékk heilahristing og man ekkert eftir að við förum frá Akranesi. Ég man ekkert eftir ferðinni í bæin né slysinu sjálfu. Og það eru einnig atburðir frá því fyrr um daginn sem hafa dottið út og ég man ekki eftir.

Að muna ekkert eftir þessu gerir mér aðeins erfiðara fyrir að takast á við þetta allt og er ég því búin að vera að reyna að púsla þessu saman hvernig þetta var allt. Og þá aðalega til að vita hvað börnin mín upplifðu, hvað þau sáu og hvernig þeim leið, til að ég geti aðstoðað þau að takast á við þetta.

Sem betur fer, sem er þó alls ekki gott, að þá muna Máney og Sóley eiginlega bara eftir slysinu. Frosti man eftir árekstrinum sjálfum en hann hefur líklegast rotast því hann datt aðeins út. Krakkarnir muna eftir að það var fólk hjá þeim að tala við þau til að halda þeim vakandi en muna ekkert eftir öðru í kringum sig.

Máney og Sóley stóðu sig eins og hetjur á slysstað, að ná öllum út úr bílnum og halda utan um alla ásamt fólkinu sem kom til aðstoðar. Máney var lögð inn á gjörgæsludeild en Sóley var útskrifuð frá bráðamóttökunni og sá um systkini sín sem voru lögð inn á bráðadeild barnaspítalans.

Ég reyni mitt besta við að halda utan um börnin og hafa allt á hreinu hvað þau varðar og átti ég því mjög erfitt með að takast á við það að þegar þau þurftu hvað mest á mér að halda þá var ég ekki til staðar fyrir þau.

En á sama tíma náði ég að hugsa um hversu mögnuð börn ég á! Hversu sterk og frábær þau eru að geta tekist á við þetta þrátt fyrir að ég hafi ekki verið til staðar.

Á slysstað spurðu stelpurnar mig í hvern þær ættu að hringja og fengu þau svör frá mér að þær mættu bara hringa í hvern sem þeim langaði til að hringja í. Mjög hjálpleg móðir..

Ég spurði þær að því hvað við værum að gera þarna, hvað hefði komið fyrir og hvaðan við hefðum verið að koma. Máney segir mér að við höfum verið upp á sjúkrahúsi hjá Fanney og syni hennar og leist Máney alls ekki á svar mitt þegar ég segi, „ekki segja mér að Fanney sé búin að eiga!“,

Ég hef samt ekki verið alveg í ruglinu því ég spurði endalaust um börnin á meðan við vorum þarna að bíða eftir sjúkrabílum og bað ég um að fá að vita alltaf stöðuna á þeim, hvernig þau væru. Mér létti mjög við að fá að heyra af þessu og vita að ég væri að hugsa um þau þrátt fyrir mitt ástand.

Á sjúkrahúsinu gat ég ekki sagt hvaða börn ég hafði verið með í bílnum og mundi ekki einu sinni eftir því að ég byggi í Reykjavík.

Ég man í raun ekki eftir neinu fyrr en um morguninn daginn eftir, fyrir utan eitt skilaboð um kvöldið. Þar sem ég var með Áka son Helgu systur sem var stödd erlendis, þá sendi hún mér skilaboð og spyr hvort hann hafi verið góður að sofna. Ég man að ég gerði mér grein fyrir að ég var ekki í ástandi til að fara að skýra neitt út fyrir Helgu, varð samt að svara henni án þess að fara frekari út í neitt svo ég sendi henni skilaboð til baka „já yndislegur“.

Ég var lögð inn á gjörgæslu ásamt Máney og Jasmín og vorum við víst þar allar saman. Myrra var í sérherbergi og voru læknar og hjúkrunarkonur hjá henni öllum stundum.

Mér þótti mjög vænt um að heyra að þó ég hafi verið stjörf þá hafi ég ekki sofnað fyrr en ég vissi nákvæmlega hver staðan var á öllum börnunum, hvar þau væru stödd og ekki fyrr en ég vissi að Myrra var búin í aðgerð og að hún væri á lífi.

Ég fór heldur ekki að sofa fyrr en ég var búin að tala Jasmín í svefn þar sem hún var víst í fullu fjöri þarna á gjörgæslunni. Hún sá um að skýra út hver allir væru til að auðvelda starfsfólkinu. Hún var líka að metast við Máney þar sem Jasmín hafði einkahjúkrunarkonu hjá sér og var mjög sátt með það.

Dagurinn eftir slysið átti að vera eitthvað skemmtilegur hjá öllum, Frosti ætlaði að halda upp á afmælið sitt með vini sínum, það var sparinesti og dótadagur í grunnskólanum, einhverjum var boðið í afmæli, ég átti að mæta á fund, Sóley og Máney áttu bókað flug til Spánar og allt var þetta í þessa áttina.

Morguninn eftir ég hafði rænu á að hringja í leikskólann og láta vita að Myrra og Bæron kæmu ekki í leikskólann. Ég frétti síðar að ég gerði víst mjög lítið úr þessu og hljómaði símtalið eins og að krakkarnir myndu bara koma eitthvað aðeins síðar um morguninn. Ég hafði þó ekki vit á að hringja og biðja um frí í grunnskólanum og fékk ég símtal frá skólanum þar sem ég var spurð um hvar börnin væru þar sem þau væru ekki mætt.

En þetta var þvílík ringlureið og var ég þó nokkurn tíma að átta mig á að við vorum nokkur á Landpítalanum í Fossvogi og hin okkar væru við Hringbraut.

Það tók einnig góðan tíma að ná utan um ástand hvers og eins, á hvaða deild krakkarnir væru, hver væri útskrifaður og hver væri hjá öllum krökkunum til að passa upp á að allir hefðu einhvern hjá sér.

En þessi tími, fyrstu ein til tvær vikurnar eftir slysið eru mjög óljósar. Ég var að slást við mikinn höfuðverk og að reyna að vera til staðar fyrir alla aðra sem gekk bara alls ekki upp.

Ég man á öðrum eða þriðja degi eftir slysið þá var ég svo slæm í höfðinu að ég svaf mest allan daginn. Ég gat ekki lyft höfðinu og hvað þá sest upp og komst ekki til Myrru fyrr en um kvöldmatarleytið sem bætti á mig enn meira samviskubiti fyrir að vera ekki til staðar. Ég vissi að það voru alltaf tveir starfsmenn að vakta Myrru allan sólahringinn og að ég yrði látin vita ef einhver breyting yrði hjá henni en samt átti mamman auðvitað að vera hjá molanum sínum líka.

Svo samviskubit og hve mikið vantar í þetta púsluspil er meðal annars ástæðan fyrir af hverju ég hef dregið það að skrifa meira tengt slysinu.

Ég veit ekki einu sinni enn í dag hvernig þetta var með sjúkrabílana, til dæmis hvort að Bæron þriggja ára hafi farið einn í sjúkrabíl eða hvort hann hafi komið með mér.

Perla var stödd í Danmörk með landsliðinu þegar slysið varð og Örn kærasti hennar var staddur í Noregi á þjálfaranámskeiði. Þau tóku bæði næsta flug og voru komin heim og upp á sjúkrahús strax daginn eftir slysið.

Ég frétti svo þremur vikum síðar að ég hafði sent Perlu skilaboð um að við værum öll í góðum höndum og hún ætti bara að halda áfram landsliðsverkefninu, standa sig vel og skora mörk fyrir mig.

Fanney útskrifaði sig af fæðingardeildinni og komu hún, Garðar og nýfæddur beint upp á sjúkrahús til okkar. Ekki ákjósanlegar fréttir fyrir móður nýbúna að eiga sitt fyrsta barn.

Mamma, Albert og Skjöldur komu strax suður og Arna elsta dóttir Alberts, Irving kærasti Máneyjar og Gunnar kærasti Sóleyjar voru einnig mætt strax upp á sjúkrahús.

Útskýringar Jasmínar komu sér því mjög vel fyrir starfsfólkið til að skilja tengsl fjölskyldunnar sem fyllt hafði sjúkrahúsið þarna á einu kvöldi.

Ég er þeim sem komu að slysinu og aðstoðuðu okkur innilega þakklát og eiga þau einnig alla mína samúð fyrir að hafa komið að slysstað. Ég get ekki ímyndað mér hvernig er að sjá eða að koma að svona slysi og þykir mér það óendanlega leitt.

Það eru endalausum spurningum ósvarað varðandi þetta allt en það eru allt spurningar sem skipta í raun engu máli. Við erum öll á lífi og erum öll saman svo ég ætla að hætta þessu rannsóknapúsli núna og halda bara áfram.

Vera hamingjusöm og endalust þakklát ♡♡

❀❀❀

Myrra sem fór verst út úr slysinu líkamlega er búin að standa sig eins og hetja.

Hún er glöð og kát en er orðin pirruð á að mega ekki borða neitt skemmtilegt né leika sér eins og hún vill. Er því kominn smá leiðindarpúki í hana, sem er mjög skiljanlegt, en getur gert mann nett pirraðan. En um leið og ég minni mig á hvað ég er lánsöm að hún er heil og á lífi þá verð ég nú bara nokkuð þakklát fyrir þessa litlu grumpy gellu mína :)

Og nýjustu fréttir af dömunni, þá reif hún upp vírana og við fórum strax til kjálkaskurðlæknisins sem sagði að þetta liti allt vel út. Og þar sem skottan getur þá opnað aðeins betur munnin þá fékk hún leyfi til að byrja að bæta hafragraut og grjónagraut inn í annars fljótandi fæði sitt. Var því mikil hamingja hér þegar skottan fékk grjónagraut í matinn :)

Við fáum síðan tíma á Landspítalanum í næstu viku þar sem Myrra verður svæfð og mun læknirinn hennar þá fjarlægja vírana. :)

Í næstu viku! :D

Þá verður hægt að byrja að saxa á uppsafnaðar afmælisveislur júní og júlí mánaðar, Skjaldar, Jasmínar, mín og Frosta.

Smátt og smátt getur Myrra byrjað að borða allar þær kræsingar sem hún bíður eftir. Og hægt verður að skíra litla frænda þar sem það má fara að halda veislur á næstunni :)

Allt að gerast ♡♡

Yngrideildin skrapp á rúntinn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í dag


bottom of page