Myrra Venus fékk heimferðarleyfi
Kraftaverk gerast og er Myrra komin í heimferðarleyfi♡
Við fengum að fara heim seinnipartinn í dag í smá leyfi en förum aftur í fyrramálið upp á barnadeild.
Við ákváðum í upphafi að ná undraverðum bata og hefur það bókstaflega gengið eftir. Myrra mun því útskrifast á næstu dögum ♡♡
Það mun auðvitað taka tíma fyrir kjálkabrotið að gróa og mun hún áfram vera með kjálkann víraðan saman, en við getum verið heima og náð bata heima♡
Þessar dásamlegu fréttir, að allt gengi svo vel að við gætum farið heim í dag, komu mér svo skemmtilega á óvart. Ég eiginlega titraði af spenningi og gleði yfir þessu og á sama tíma var ég stressuð yfir allri óvissunni og hvað allt væri óklárt.
Ég var ekki einu sinni með skó á Myrru á sjúkrahúsinu, átti eftir að redda bílamálum, kaupa barnabílstóla, kaupa fljótandi fæði fyrir dömuna og áhyggjur yfir ýmsum svona óþarfa hlutum sem allir reddast auðvitað. Tímasetningin var einnig frábær þar sem ég var að fara í síðustu hreinu flíkurnar mínar sem ég var með mér hahaha.
En guð minn almáttugur! Allt hefur gengið frábærlega, langt framar öllum vonum og við erum komnar heim ♡♡♡
Svo nú er bara að safna börnunum mínum aftur saman á næstu dögum og ná bata saman. Og guð minn góður, elsku elsku elsku börnin mín eru öll búin að standa sig eins og hetjur í þessu öllu og er ég bókstaflega að springa úr stolti yfir hvað þau eru frábær og flott ♡♡
Og mögulega ef allt gengur vel þá náum við að fara í útskrift Perlu og Arnar næsta sunnudag og náum að plana og halda upp á átta ára afmæli Jasmínar sem verður núna 26. júní.
Það er alveg magnað hvernig lífið á það til að láta allt ganga upp ♡♡
Við erum annars búnar að hafa það mjög gott hér á Barnaspítalanum og Myrra orðin þvílíkt sjóuð í öllu þessu stússi með hana og að hitta endalaust af nýju starfsfólki sem hún kallar leikskólakennara ;)
Hver dagur er búin að vera stór sigur og er dagleg framför hjá elsku Myrru hetjunni minni.
Við héldum hátíðlega upp á 17. júní með fánum, gasblöðrum og skrúðgöngu. Skrúðgangan saman stóð af mér, Myrru og hjólastönginni sem hélt uppi næringarpokum og annari nauðsyn. Við gátum skemmt okkur mikið yfir þeirri vitleysu og fífluðumst með þetta.
Perla og Fanney eiga báðar mynningar af gasblöðrum, sem ég hafði keypt og hengt á rúmið hjá þeim, þegar þær voru á barnaspítalanum fjögurra ára gamlar. Fóru þær því í það að kaupa gasblöðrur handa systir sinni til að hún myndi einnig eiga slíka mynningu.
Herbergi Myrru ansi litríkt og skemmtilegt fyrir fjögurra ára gyðju.
Dásamlegi forseti okkar sýndi okkur mikinn stuðning og heiður með því að hugsa til okkar og minntist á okkur í hátíðarræðu sinni sem mér þykir óendanlega vænt um.
Hér er brot úr ræðu forsetans ♡
Takk innilega allir sem hafa hugsað til okkar og veitt okkur styrk og stoð ♡
Ég var einmitt að heyra af því að lögreglan hefði einnig staðið sig óendanlega vel og greitt allar leiðir og gert sjúkrafluttningamönnum fært að keyra rakleitt með okkur frá slysstað að sjúkrahúsi.
Vil ég því einnig þakka lögreglunni innilega fyrir sitt hlutverk í að koma okkur til aðstoðar.
Á sama tíma heyrði ég að allir sem voru þarna með okkur í umferðinni, þegar slysið varð, hefðu aðstoðað á einhvern hátt. Með að hringja á neyðarlínuna eða hlúa að okkur og halda okkur vakandi og vil ég því þakka þeim öllum innilega fyrir okkur ♡♡
Enn og aftur, innilega takk allt og allir fyrir samstöðuna og góðvildina sem þið hafið sýnt okkur í þessu.
Ég er óendanlega þakklát fyrir allt og innilega hamingjusöm yfir hvað við eigum góða að ♡
Ég mun á næstu dögum reyna að skrifa og segja eitthvað meira frá þessari rússibanareið sem þetta slys var.