top of page

Góðir hlutir gerast súper hratt!


Myrra ákvað að gera smá undantekningu á annars mjög góðu máltæki. Máltæki dagsins var því að góðir hlutir gerast súper hratt!

Myrra losnaði við barkaslönguna í dag, útskrifaðist af gjörgæsludeild og erum við komnar upp á "dótaspítala" eða Barnaspítala ♡♡

Þessi mynd er með fyrstu og einu myndunum sem ég tók á gjörgæsludeildinni þar sem ég ákvað að engin ástæða væri til að muna dagana þar á undan. Fyrir utan auðvitað hvað við vorum lánsamar að vera umkringdar dásamlegu starfsfólki sem gaf endalaust af sér og hugsuðu um Myrru eins og hún væri þeirra eigin ♡

Myrra Venus sætabaun, orðin þekkjanleg og rétt áður en barkaslangan var fjarlægð ♡

Myrra byrjaði að kasta upp, sem var eitt af mínum "hvað ef" áhyggjuefnum þar sem kjálkinn er víraður saman. En auðvitað stóð hún sig eins og hetja í þeim aðstæðum og tókst að kasta upp án þess að klippa þyrfti á vírana.

Ef horft er á björtu hliðarnar, þá var það lán í óláni að önnur framtönnin hjá henni datt úr í slysinu, sem myndar því smá auka smugu milli kjálkans.

Ég man ekki eftir fyrstu tveimur skiptunum sem ég sá Myrru á gjörgæsludeildinni, sem er líklegast bara mjög gott.

En ég man eftir þegar ég sá hana í þriðja sinn, þá spurði ég lækninn hvort þetta yrði ekki í lagi og hvort hún næði ekki örugglega bata og yrði sama Myrra mín og hún var fyrir slys.

Og á þeim tímapunkti þá gátu læknarnir ekki svarað því og fékk ég bara svör um að allt það besta yrði gert en ekki væri hægt að svara neinu um það.

Sem betur fer er Myrra ótrúlega dugleg, sterk og hraust og tókst henni með ótrúlegum árangri að koma okkur þetta hratt til bata. Erum við því fullvissar um að við verðum komnar heim áður en við vitum af með þessu áfram haldi.

Perla er búin að Selfossvæða gengið og keypti boli á þau með númerinu 50 sem er leikmannanúmerið hennar. Komu þau á gjörgæsluna með merktan bol handa Myrru líka sem hún var mjög sátt með.

Sjá þetta dásamlega gengi mitt :)

Myrra er búin að vera svo ótrúlega dugleg og framfarirnar alveg eftir því. Algjör hetja og svo skynsöm. Við höfum því getað rætt allt við hana hvað þurfi að gera og heldur hún ró sinni og aðstoðar við allt til að við getum látið allt batna sem allra fyrst.

Hún og Perla ræddu því um að hún yrði að fá verðlaun fyrir dugnaðinn. Þarna heyrðist ekkert í Myrru en samt sem áður tókst henni að gefa til kynna að hún gæti fengið bikar í verðlaun.

Furðum við Perla okkur enn á því hvernig þetta samtal þeirra þróaðist því áður en við vissum af var Myrra búin að sannfæra Perlu um að þær ættu núna stærsta bikarinn hennar Perlu saman og að Perla ætti að koma með bikarinn á sjúkrahúsið.

Stóð Perla auðvitað við sitt og mætti með verðlaunabikar handa Myrru upp á Barnaspítala í dag hahaha :)

Helmingurinn af genginu mínu var mætt upp á Barnaspítala til okkar í dag og aðstoðaði okkur við að koma okkur fyrir og aðlagast nýjum aðstæðum.

Dagurinn er búinn að vera dásamlegur í alla staði og þvílík stór skref tekin.

Þar sem Myrra losnaði við barkaslönguna langt á undan öllum fyrirhuguðum plönum þá er litla daman komin með dásamlega mjóróma og lága rödd svo hægt er að skilja hvað hún segir ♡

Rödd hennar núna er svona eins og þegar andað hefur verið að sér helíum úr blöðru og talað, rödd hennar er ekki alveg eins skræk samt, bara dásamlega mjóróma og skiljanleg :)

En um leið og það grær fyrir gati' á hálsinum, eftir barkatúpuna, þá hættir loftið að fara út um það og fer allt í að mynda fallegu röddina hennar.

Gert var ráð fyrir að barkatúpan þyrfti að vera næstu vikur og var verið að tala um að fá talventil á túpuna svo hún næði að tjá sig á næstu vikum.

Batinn er því búinn að fara langt fram úr okkar björtustu vonum

Það gengur semsagt allt eins og í sögu hjá okkur og langt framar vonum ♡♡♡

Nú er bara að ná upp kröftum og stíga í fætur og fara að leika. Það er búið að stilla verkjalyfin og nú þarf bara að stilla næringuna af og kenna okkur á og aðstoða með fljótandi fæði.

Já, við fórum í sjúkrabíl á milli deildanna í dag og fannst Myrru það bara spennandi að fara í rúmi í bíltúr :)

Myrra var mjög sátt við að fá litla frænda í heimsókn og stóð hún sig auðvitað dásamlega í barnapíuhlutverkinu ♡

Þessar tvær að kjánast með límmiða á enninu

Og litli frændi fékk einnig að prófa límmiðann ♡

Og enn og aftur þökkum við innilega fyrir okkur. Öllum sem komu að slysstað og aðstoðuðu þar, sjúkraflutningafólkinu, bráðamóttöku starfsfólkinu, gjörgæslu starfsfólkinu, starfsfólkinu á B6, starfsfólkinu á Barnaspítalanum og öllu heilbrigðisstarfsfólkinu sem hljóp til í útkallinu til að aðstoða okkur.

Og öllum sem hafa stutt okkur, styrkt og verið til staðar.

Ég á einfaldlega ekki til orð yfir alla velvildina og dásemdina sem okkur hefur verið sýnd. Er innilega þakklát og hamingjusöm fyrir hvað við eigum frábæra að. Við erum bókstaflega að springa úr hamingju yfir þessu öllu saman ♡

Endalaust þakklæti frá okkur til ykkar ♡♡♡♡


bottom of page