top of page

Eingöngu skref fram á við


Myrra Venus gyðjan okkar og skærasta stjarnan í sólkerfinu er vöknuð. Og guð minn góður tilfinninginn við að sjá skottuna með opin augu, það var ein dásamlegasta tilfinning sem ég hef upplifað.

Ég bókstaflega fann hjartað mitt þenjast út og einhvernvegin fylltist herbergið af gleði. Eins og við ákváðum þá átti hún að ná undraverðum bata á mettíma, sem er auðvitað að rætast.

Hún var skiljanlega ekki sátt við aðstæður þegar hún vaknaði en var ótrúlega fljót að aðlagast einhvernvegin og stendur sig óendanlega vel og reynir sitt besta til að brosa.

Hún er þreytt, finnur til, er pirruð á þessu öllu og í ofan á lag þá á ég mjög erfitt með að skilja hana og fæ ekki mömmuverðlaun ársins fyrir varalestur né að skilja bendingar.

Ég virðist víst ekki vera svakalega góð í að skilja það sem hún er að reyna að segja og gefst litla skinnið oftast upp á að reyna að skýra það nánar út fyrir mér.

Eitt hefur mér þó tekist að skilja og það var þegar dásamlega litla skottið mitt lét vísifingur beinan upp að vörum sínum í gærkvöldi til að segja mér að ég ætti að hætta að tala :)

Bara þetta yndislega atvik gaf mér til kynna að heilinn á henni er alveg heill og að Myrra er sama dásamlega, yndislega, skemmtilega stelpu skottið mitt ♡

Hún er komin úr öndunarvélinni og er bara með súrefni núna í barkaþræðinguna.

Það er búið að trappa svæfingu og slævandi lyf verulega niður og er búið að fækka verulega lyfjum og slöngum hjá henni.

Öll bólga er að verða runnin af henni og hún er orðin þekkjanleg litla músin mín.

Hún fór aftur í aðgerð í gær þar sem þetta var ekki alveg að haldast allt til friðs. Gekk aðgerðin mjög vel og það voru engin bakslög í líðan Myrru við það að fara í aðgerðina.

Svo enn sem komið er þá hafa bara verið skref áfram og er ég búin að fá hana einnig í fangið sem er dásamleg tilfinning ♡

Næstu skref eru svo að halda áfram að vakna betur, setjast upp, drekka, fækka fleiri lyfja og vökvaslöngum og drífa okkur sem fyrst upp á barnaspítala.

Ég átti þó nokkuð erfit með það að horfa á Myrru, þegar henni leið sem verst, og reyna að setja mig í hennar spor.

Hversu óskiljanlegt þetta hlýtur að vera að vakna upp og aðstæður gjörbreyttar miðað við það sem hún er vön. Og hversu óréttlátt þetta er fyrir sakleysi hennar að mamma hafi ekki verndað hana og passað upp á að hún væri óhult eins og hún veit að mamma á að gera.

Ég veit að þetta var slys og að við vorum á röngum stað á röngum tíma en þessi hugsun átti það til að poppa upp. Ég er samt viss um að hún hugsar ekki svona og kúrum við saman allan daginn og eigum hvor aðra.

Og þar sem mér gengur ekkert að skilja Myrru þá tókst henni einhvernvegin að fá mig til að lofa sér að hún fengi verðlaun þegar við færum heim, sem væri bæði dúkkuvagn og ísfjall hahah.

Við fórum öll í saumatöku á mánudaginn og Bæron fékk nýtt gifsi á fótinn þar sem hann var búinn að brjóta fyrra gifsið í fótbolta, handbolta og öðrum gauragangi.

Ég er búin að dreifa börnunum tímabundið út um allt land. Bæron og Eldon á Selfossi hjá Perlu og Erni sem breyttu sínum plönum til að hugsa um strákana svo ég geti einbeitt mér að Myrru. Bæron er því komin í Selfosssokk yfir gifsið, vínrauðan Selfossbol og lætur ekkert stoppa sig.

Ég geri alveg ráð fyrir að þurfa eitthvað að taka þá í gegn þegar við komumst heim, þar sem ég heyri að þeir eru í þvílíku dekuryfirlæti hjá Perlu og Erni. Þau eru búin að koma til okkar í heimsókn og var Myrra mjög hamingjusöm að fá þau.

Jasmín er hjá Helgu systir á Breiðdalsvík og er þar einnig í þvílíku dekri og yfirlæti. Sagði hún mér einnig, þvílíkt hamingjusöm, að hún væri búin að fá að afgreiða tvisvar sinnum í kaupfélaginu og eru Skjöldur og Frosti síðan í Eyjanesi.

Skjöldur á 13 ára afmæli núna 14. júní. Fór ég því í það frá gjörgæsludeild að koma því í kring að hann gæti haldið upp á afmælið sitt fyrir bekkinn og vini fyrir norðan á afmælisdaginn. Munum við síðan halda upp á afmælið fyrir bekkinn hans og vini í bænum þegar allt er komið í skorður aftur.

Perla og Örn útskrifast síðan núna 23. júní, Jasmín verður 8 ára 26. júní og svo á ég lítinn ömmudreng sem á eftir að skýra. Eintóm gleði og tilefni á næstu dögum ♡

Og ég hlakka innilega til að knúsa alla þessa mola mína.

Sjá þetta krútt ♡ litli Fanneyjar hnoðri

Og enn og aftur takk allir innilega fyrir endalausan samhug, velvild, góðmennsku, dásemd, skilaboð, kveðjur og hvað allir eru að vilja gerðir til að aðstoða okkur og létta undir með okkur.

Við erum ofboðslega þakklát, snortin og hamingjusöm.

Þegar við erum komin yfir á barnaspítalann þá erum við innilega til í að fá vini í heimsókn til að hjálpa okkur við að láta tímann líða hraðar og til að gleðjast með ♡♡


bottom of page