top of page

Ferð sem vatt aðeins upp á sig


Ég var að koma heim eftir dásamlega daga á Akureyri. Ég fór af stað upp úr hádegi á föstudeginum og var að skila mér heim. Ég fór með það í huga að koma aftur heim á föstudagskvöldinu eða jafnvel gista eina nótt, en eitt leiddi að öðru og ég skilaði mér heim núna á mánudagskvöldi rétt upp úr klukkan átta.

Frosti fór með Kormák, fótboltaliði sínu, til Akureyrar að keppa á Goða mótinu sem var núna um helgina. Því ákvað ég að nota tækifærið, mæta á leikina hjá Frosta og fá námsaðstoð hjá einum kennara í leiðinni. Kormákur vann báða leikina á föstudeginum í þeirra riðli og Frosti svo ánægður að ég væri á leikjunum að ég ákvað að gista og mæta á leikina daginn eftir.

Hann hringdi í mig klukkan hálf átta á laugardagsmorgninum til að láta mig vita að fyrsti leikurinn væri klukkan átta um morguninn. Ég sagðist vita það, væri bara að klára að borða og kæmi svo. Þegar ég mætti á völlinn, mætir hann mér með risastórt og dásamlegt bros, hann var svo ánægður og sagði að hann hefði verið viss um að ég myndi missa af fyrsta leiknum og skyldi ekkert í því hvernig mér hefði tekist að vera svona fljót á leiðinni! elsku stumpurinn hélt að ég hefði verið að koma frá Eyjanesi á núll einni :)

Fyrir klukkan tíu um morguninn höfðu þeir unnið alla þrjá leikina sem þeir áttu að keppa þann daginn, og auðvitað gat ég þá ekki farið heim og mætti því á úrslitaleikina tvo sem voru á sunnudeginum. Þeir unnu annan leikinn og gerðu jafntefli í þeim síðari og fóru sáttir heim með bikar :D

Já og enn síður gat ég farið heim á sunnudeginum! þó fótboltamótið væri búið, þá var gagnlegur tími í háskólanum á mánudagsmorgninum sem mig langaði að ná, ég þurfti aðeins meiri aðstoð hjá fyrrum kennara mínum og Perla og Örn voru komin til Akureyrar með bekknum sínum í háskólanum á Laugarvatni. Kennslan hjá þeim næstu vikuna verður í Skautahöll Akureyrar og upp í Hlíðarfjalli. Svo auðvitað vildi ég ná að hitta á þau líka og fór því ekki heim aftur fyrr en ég var búin að njóta dagsins með þeim upp í Hlíðarfjalli á skíðum.

Svo þessi ferð mín sem átti að vera skottúr teygðist örlítið ;)

En svona er þetta stundum, endalus ævintýri og nýta hvert tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum.

Mæðgur uppi í fjalli

Frosti Sólon <3

Það sparkaði einhver boltanum svona skemmtilega inn á myndina hjá okkur, Frosti var að vandræðast með að hlægja ekki hahaha

Kormáksliðið

Fótboltalið Frosta fór allt saman á bíl til Akureyrar ásamt þjálfurum og sáu þeir snillingarnir alveg um þá alla helgina með mjög flottri dagskrá. Fyrst ég var á Akureyri og það var smá tími í dagskrá Frosta þar sem hentugt var að kippa honum frá hópnum, þá notaði ég tækifærið og við skelltum okkur á skíði á laugardeginum, tímasetningin var frábær og ég skutlaði honum eftir skíði, beint í bíó til liðsins.

Ég hafði tekið með útiföt á hann og mig svona ef ef, en var ekkert búin að tala um það við hann, svo ég stal honum þarna með mér í óvissuferð

Eftir skíðaferð hélt ég áfram að læra og læra og um átta leytið á laugardags kvöldi labbaði ég og fór ein út að borða á Rub 23, æðislega flottur og góður matur og félagskapurinn með eindæmum æðislegur ;) hahaha

Fann þessa skvísu upp í Hliðarfjalli í dag, mánudegi :)

Stólalyftan aðeins of hægfara fyrir minn smekk og ég varð eiginlega frosinn á leiðinni upp, er ekki sú þolinmóðasta ;) Við erum ekki brosandi á myndinni, við erum bara svona frosin ;)

En guð hvað þetta var samt dásamlegur dagur, að ná að hitta Selfoss parið á Akureyri og komast á skíði með þeim

Ég elska liðlegheit og núna um helgina er ég búin að vera af og til upp í háskóla Akureyrar að fá námsaðstoð frá fyrrum kennara mínum. Algjör snilld að geta leitað áfram til eðalkennara og hafa alltaf aðgang að og geta lært í háskólanum. Fyllist stolti og skemmtilegri tilfinningu yfir að vera nemandi í þessum frábæra skóla.

Ég gisti á Hótel Norðurlandi og það er eins og ég eigi eitt herbergið á hótelinu því ég fæ alltaf sama herbergið í hvert sinn sem ég gisti þarna hahaha. Það er líka svona þegar ég gisti á hótel Akureyri, þar fæ ég líka alltaf sama herbergið. En mér finnst æðislegt að gista á hótelunum sem eru alveg niður í miðbæ og í göngufæri við allt, ég gisti reyndar í Sæluhúsum þegar ég er með börn með eða er að sækjast í að hafa heitan pott.

Já svo er þessi ísbúð hinu megin við götuna hjá hótel Norðurland, svo auðvitað nýti ég mér það! það er ekki á hverjum degi sem ég get labbað út í ísbúð ;)

Alveg fínasta hótel, herbergið mitt á hótel Norðurlandi ;)


bottom of page