top of page

Pínu ýtin ef ég ætla mér eitthvað ;)


Á vissum tímapunkti varð ég alveg viðþolslaus af pirringi við að sjá engar leiðir hvernig ég gæti farið að því að mennta mig. Ég búandi út í sveit með sex börn og framhaldsskólinn ekkert alveg í næsta húsi við mig.

Ég fór ekki í nám strax eftir grunnskóla, ég var í allt öðrum pælingum og vissi ekkert hvað mig langaði til að læra. Ég prófaði nokkrum sinnum að skrá mig í fjarnám í einn og einn áfanga, hver áfangi rándýr og kennslan takmörkuð sem fylgdi náminu. Þarna var ég með námsbækur, verkefni sem átti að skila en vissi varla út á hvað verkefnin snérust eða hvað ég var að gera. Ég kláraði sem sagt aldrei neitt af þessum fögum og sá fyrir mér að ég kæmist ekki í nám fyrr en börnin mín væru uppkomin.

Útskrifaðist frá Háskólabrú Keilis í janúar 2014, tveim vikum áður en ég eignaðist 9. barnið mitt :)

Ég sá auglýsingu frá Keili, Háskólabrú, eins árs nám í fjarnámi!

Akkúrat það sem mig vantaði til að komast í háskólanám. Það var reyndar einn hængur á, þar sem ég hafði ekki lokið einni framhaldsskólaeiningu.

Svo ég fór á fullt í að skoða hvernig ég gæti rimpað nokkrum einingum af, til að komast í Háskólabrú Keilis.

Þá fann ég Háskólastoð, sem var auglýst sem eins árs nám, undirbúningur fyrir Háskólabrú. Ég hef auðvitað alltaf verið súper bjartsýn manneskja og hringi í Háskólastoð til að kynna mér námið en fæ þá að vita að þetta nám sé jú kennt að hluta til í fjarnámi en ég þurfi að mæta á miðvikudögum í skólann í Reykjanesbæ!

Ég átti ekki til orð, þetta var tækifærið mitt til að komast í Háskólabrú, en ég var ekki að fara að mæta alla miðvikudaga í Reykjanesbæ. Svo í staðinn fyrir að segja bara “ekkert mál og takk fyrir mig, ég hlýt að finna eitthvað annað”, þá fór ég að segja manninum í símanum, sem sá um Háskólastoð, að þetta gagnaðist mér bara ekki neitt. Mig vantaði nám í fjarnámi til að ég kæmist í fjarnám í Háskólabrú hjá Keili! hahaha.

Ég hringdi nokkru sinnum í manninn og athugaði hvort þau væru ekki að fara að breyta náminu hjá sér, hvað það myndi gagnast mikið fleirum að hafa námið alveg í fjarnámi og að “MIG” langaði til að mennta mig en þetta væri ekki að ganga upp fyrir mig. Svo varð staðan pínu óþægileg þar sem maðurinn sagðist þekkja til í Hrútafirði og þekkja manninn minn hahaha, og ég að frekjast um að fá hann til að breyta heilli námsleið ;)

Ég hringdi því í manninn og reyndi að vera nafnlaus, en þar sem ég hef alltaf verið hörmulegur lygari þá hafði ég ekki meira ímyndunarafl en svo að ég sagðist búa á Hvammstanga, sem er næsti bær við mig. Maðurinn hefur ábyggilega þekkt mig í símanum þar sem ég breytti ekki einu sinni röddinni, þóttist bara vera einhver önnur sem væri líka alveg óð í að fara í fjarnám hahhaha :D

Alla vega þá sendi maðurinn mér tölvupóst aðeins síðar og sagði að námsleiðinni yrði breytt, nafni námsins yrði breytt í Menntastoð og yrði kennt í fjarnámi! Hann var mjög faglegur, orðaði ýtnina í mér mjög fínlega, og skrifaði á þá leið að þar sem ég hafði komið þessu litla hjóli af stað, hvort ég hefði þá ekki enn áhuga á þessu námi hjá þeim. Vá þvílík hamingja! :D ég var reyndar með hálfs árs gamalt barn þarna, ásamt sex öðrum börnum svo ég var pínu skeptísk á að byrja í námi með ungabarn, en ég heyrði í manninum í síma og ákvað að skella mér í mitt langþráða fjarnám. Enda hef ég verið með ungabörn og í námi allt eftir það ;)

Þetta er skref og ákvörðun sem ég mun aldrei sjá eftir. Menntastoð var og er enn, sem sagt kennt í fjarnámi en með námslotum, sem ég hefði alls ekki vilja sleppa, þar kynntist ég nokkrum af mínum bestu vinum. Námið var æðislega skemmtilegt, kennararnir hver öðrum flottari og umgjörðin öll, mæli svo 100% með náminu í Menntastoð, til að komast áleiðis í námi.

Með þessu námi og dásamlega manninum sem nennti að hlusta á mig væla um að ég þyrfti fjarnámsleið ;) Þá var tilgangnum náð og ég komst í Háskólabrú Keilis sem var algjör snilld! :D

Háskólabrú var brúin sem mig vantaði til að komast í háskólanám, undirbúningurinn sem ég fékk þar er ómetanlegur, kennslan, námsefnið, meira að segja námsálagið, læra að læra og að skipuleggja sig til að ná að halda utan um massíft nám samhliða daglegu lífi, algjörlega ómetanlegt! Þar kynntist ég enn fleirum af mínum bestu vinum, kennararnir æðislegir og námið alveg í tengingu við það sem tók við í háskólanum. Uppsetning námsins er eins og nám í háskóla, utanumhaldið aðeins meira, en grunnurinn og undirbúningurinn sem ég fékk í Háskólabrú varð til þess að háskólinn var bara næsta skref, ekki stórt né óyfirstíganlegt, engin brjáluð viðbrigði, bara eðlilegt áframhald sem næsta skref, ég fór því í fjarnám í Háskólanum á Akureyri og er á 3. ári í sálfræði B.A námi :)

Það er alveg pakki að vera í fullu námi með fjölskyldu og allt annað í lífinu, þess vegna finnst mér enn dásamlegt þegar unglingar mennta sig áður en þau koma upp fjölskyldu ;)

En auðvitað hefst allt, ég hef alveg þurft að púsla til að láta þetta allt ganga hjá mér, margt þurft að sitja á hakanum og breyta forgangsröðun. En allt er hægt ef maður ætlar sér. Ég hef til dæmis tekið stærðfræðipróf á netinu af fæðingardeildinni, lagt loka hönd á og skilað af mér verkefni þegar ég var stödd á Kanarí í fjölskylduferð, tekið netpróf þegar ég var með fjölskyldunni á Flórida, já og verið á skype í hópverkefni stödd á fæðingadeildinni, daginn eftir keisarauppskurð(bjöllukeisara).

Eitt ungabarnið rumskaði á 10 mínútnafresti á kvöldin, sem var tíminn sem ég notaði til að læra, svo námstíminn minn fór mest allur í að hlaupa á milli barns og lærdóms, þar til ég byrjaði að hafði barnið bara í barnabílstólnum, sem hægt var að rugga, undir skrifborðinu hjá mér, þar svaf barnið í myrkri og hjá mér, á meðan ég gat lært við ljós fyrir ofan borðið :)

Það er allt hægt, bara misjafnt hvernig maður lætur hlutina ganga upp :D

En ég tel að nám sé alltaf máttur, ég hélt að ég væri að verða of gömul til að fara í nám á sínum tíma en aldur og búseta er engin afsökun né fyrirstaða lengur... tíu stykki börn eru ekki einu sinni afsökun til að fara ekki í nám ;)


bottom of page