top of page

Tiltektargír eykur bara kaupæðið mitt ;)


Heyrðu jæja við erum stopp á þvælingi í bili. Albert hefur reyndar ekkert komist í frí í allt sumar svo það hlýtur að fara að koma að því að við séum að fara að ferðast eitthvað ;)

En engin rútína er komin á neitt hér, skólinn fer alveg að byrja og ég þvílíkt fegin að hafa ekki eytt öllu sumrinu heima í húsverk :) Meira að segja þegar við vorum heima, ef sólin skein og við fukum ekki við það að labba út fyrir, þá var ég bara úti í garði og gerði ekki handtak inni :)

Nóg var af rok dögum til að eyða í það. Lognið fer nefninlega oft aðeins of hratt hérna hjá okkur.

Ég eyddi samt ekkert of mörgum dögum í tiltekt sem betur fer, því ég í tiltektargír, þá fer allt af stað og ég fer á flug að hugsa um hvað mig "nauðsynlega vantar margt"

= langar í ;) og hverju mig langar að breyta. Ég er svolítill sökker fyrir nýjungum, sniðugum hlutum og allslags trendum.

Núna til dæmis af því að ég var í barnaherbergja tiltekt þá vantar mig nauðsynlega allslags sniðugar töskur, koffort og box undir hin og þessi leikföng. Mig dauðlangar í lítinn Eames ruggustól(eftrlíkingu) fyrir börn, nett skrifborð, tjald, sparkbíla og fullt af punti inn til krakkanna, breyta breyta kaupa kaupa! ég verð bara óð!

Ég vil samt alls ekki meira af litlum leikföngum, bara svona stærri hlutum og punti.

Er einmitt á fullu að hugsa hvað ég verði að vera bilað sniðug í jólagjafahugmyndum þetta árið, þar sem ég nenni ekki meira af leikföngum :)

Sóley var að kaupa sér stól sem kom í risa kassa. Ég varð alsæl með þennan kassa og fór með hann beint inn í barnaherbergi. Í stað þess að leifa börnunum að leika með hann, klippa út glugga og hurð eins og góðum mömmum sæmir, þá tók ég kassann og fyllti hann af leikföngum sem börnin eru ekkert að leika sér með ;) :D

Mér finnst mjög fínt að kippa reglulega burtu leikföngum í einhvern tíma og leifa þeim að fá þau aftur síðar.

Smá pása á þetta.

Ég tók einmitt eftir einu fjarstýrðum bíl sem ég hafði sett í kassann, hann hefur verið batteríslaus í þó nokkurn tíma og þar að leiðandi ekkert leikið með hann. Ég ákvað að gefa honum smá séns og keypti batterí. Heyrðu hann er búinn að vera stanslaust á ferðinni síðan og vekur jafn mikla lukku, eins og nýtt leikfang ;)

Svo er það líka hjá mér með leikföng, já og föt, að ég er með börn á öllum aldri og bæði kyn svo ég er lítið í að gefa frá mér föt og dót sem enn er nothæft, því það er alltaf annað barn yngra sem mun taka við og tískan fer alltaf í hringi svo fötin eru alveg inn þó næsti taki við átta árum síðar ;) ég er því með alveg nokkra kassa í geymslu, smá svona lúxusvandamál...

Þetta er alveg góður kassi ;)

Eldon alsæll með gamla bílinn sinn sem var gefið nýtt líf með batteríkaupum ;) :D

Já, hugurinn hjá mér er á flugi í þessu tiltektargír mínum. Sko, mér finnst æðislega kósý þegar börnin mín fara nýböðuð upp í hrein rúm, veit ekki um meiri kósýheit.

Ég veit ekki hvað ég hef keypt mikið af flottum mjúkum sængurverasettum undanfarin ár, en einhverra hluta vegna hafa þau greinilega öll verið í gjafir, því hér er bara eitt nýlegt "gleym mér ey" barnasængurver og eitt "dansi dansi dúkkan mín" á krakka sæng.

Sængurverið sem Eldon er með á þessari mynd, Perla fékk það þegar hún var 2 ára, Perla verður 20 ára núna í september! Já það er svo annar handleggur sem ég er á fullu að hugsa um þessa dagana líka, tvítugs afmæli Perlu...

En já, öll börnin frá Perlu að Eldon, sem sagt átta stykki, hafa því notað þetta sama sængurver og það haggast ekki, ekki orðið þunnt, slitið né litlaust.

Ég fór því að hugsa og skoða meira og sængurverin sem Myrra og Bæron eru með á sínum barnasængum, það eru líka sængurver frá því að Perla var lítil.

Ég held að ég nenni ekki að bíða með að þau slitni svo ég geti fengið ný handa krökkunum, ég held að ég pakki þeim bara niður og gefi Perlu fyrir tilvonandi börnin hennar, hahaha ;) Held að það sé alveg kominn tími til að splæsa í ný og ég er eiginlega búin að fá smá leið á þeim, aðeins of mikil nýtni og góð ending :)

Krakkar mínir jólagjöfin í ár verður sængurver ;)

Já og talandi um rútínulausa daga, þá voru þessir gormar á leið í rúmið eitt kvöldið og ákváðu að leika sér úti aðeins meira fyrir svefninn, á nærfötunum! Bæron missti sig og stappaði á tásunum á fullu í litlu pollunum á stéttinni :D algjört æði :)

Lognið hér alveg upp á sitt besta og fór ansi hratt hér um okkur :)

Nóbb, ég fór víst ekkert í að mála leiktækin né gera garðinn fínan eins og ég ætlaði, sumarið fór víst í eitthvað allt annað...

Í tiltektinni þá tæmdust líka flestir fataskápar, í sumar hafa börnin greinilega lengst og ég grennst svo ég verð eiginlega að skella mér til Glasgow til að versla, gengur ekki að hafa okkur fatalaus! ;) Það vantar alltaf eitthvað þó börnin eigi einhver föt af eldri systkinum.

Já og ég uppgötvaði líka að ég á eftir að framkalla næstum heilt ár af ljósmyndum!

þær eru komnar í tölvuna en ekki lengra..

Verkefnin eru endalus ef ég byrja... Það fer mér í raun bara alls ekki að vera of mikið í húsverkum, þá hef ég of mikinn tíma til að vera með hugann á flugi. Í raun þá eru húsverk eiginlega mesti tímaþjófurinn í mínu lífi ;)

Dásamlegir bræður, alveg eðal combó

Jasmín missti þriðju tönnina, efri framtönn, hin er líka laus en ég bað hana um að vera ekkert að rugga í henni, af því mér finnst þetta ekki flott tímabil þegar báðar framtennur vantar í börn haha ;)

(gangurinn er enn blár! Það er til dæmis ein hugsunin þegar ég fer í húsverk)

Heyrðu já, ég er alveg komin yfir þetta kaffi dæmi hjá mér. Nú get ég drukkið kaffi eins og hinn versti sjóari, hvort sem það er svart með mjólk, cappucchino eða hvað þetta nú allt heitir. Á meðan það er ekki of heitt þá get ég alveg drukkið það. Hef ekki enn smakkað kaffi sem er bilað gott eða vont, kaffi er enn bara kaffi en ég get alveg drukkið það, sérstaklega ef ég þarf að halda mér vakandi.

Svo sá ég þennan í Casa og ég er alveg viss um að ég verði að eignast þennan! Ég held meira að segja að kaffi myndi bragðast bara mjög vel í svona bolla ;)

Er þessi ekki alveg fyrir mig :D


bottom of page