top of page

Selfoss er.. hinumegin tveggja heiða...


Selfoss er besti staður á Íslandi að mati barna minna! fyrir utan Eyjanes auðvitað ;) Við höfðum varla komið til Selfoss þegar Perla ákvað að hún vildi fara í fjölbrautaskólann þar, hún býr núna á Selfossi með kærasta sínum og eru þau bæði í Íþróttaháskólanum á Laugarvatni.

Ég miklaði það alveg gríðarlega fyrir mér að keyra "alla leið" til Selfoss, þó við værum stödd í Reykjavík þá fannst mér svakalegt mál að fara þangað. Sem betur fer komst ég nú hratt yfir þetta og finnst ekkert mál í dag að skreppa á milli Eyjanes - Selfoss, jafnvel dags ferð fram og til baka,

enda eins og Eldon Dýri minnir mig stundum á þá er alltaf sumar á Selfossi!

Perlu tókst að smita systkini sín af Selfoss aðdáun svo Fanney fór einnig í fjölbrautaskólann þar, og mér heyrist að Skjöldur og Frosti eru nánast búnir að sækja um skólagöngu þar líka ;)

Ef þau ætla öll á Selfoss þá verð ég kannski bara að kaupa mér hús á Selfossi.... humm.

Allavega þar sem Perla býr á Selfossi og tvö hálfsystkini krakkana búa þar líka þá reynum við að skreppa eins og hægt er til Selfoss í heimsókn, reynum að ná þrettándagleðinni þar og auðvitað Sumar á Selfossi, það er að verða fastur liður, mjög skemmtilegt :)

Og alls engin hætta á að við gleymum þessu bæjarfélagi þarna hinumegin tveggja heiða því hér hljóma ansi oft lög eins og "Selfoss er, yfir Hellisheiðina", "alltaf sumar á Selfossi Selfossi..... og fleiri Selfoss lög í boði Dj Frosta Sólons!

Perla byrjaði að æfa handbolta eftir að hún kynntist kærasta sínum Erni Þrastarsyni sem spilar handbolta með Selfoss sem og systkini hans öll þau Hrafnhildur Hanna, Hulda Dís og Haukur, svo það er kannski ekkert skrítið að Perla hafi ákveðið að prófa handbolta ;)

Það hafa ekki verið handboltaæfingar hér en Perla æfði sem krakki körfubolta, sund, frjálsar og fimleika svo hún hafði góðan íþróttagrunn þó hún hefði ekki snert handbolta fyrr en á Selfossi í lok árs 2013. Nú á handbolti hug hennar allan enda er hún að standa sig þrælvel og komst í U-20 kvennalandsliðið núna í vetur :) smá mont ;)

Skjöldur og Frosti eru komnir með handbolta bakteríuna enda flottar fyrirmyndir sem þeir eiga að, svo þeir fá að fara í eina - tvær vikur á sumrin í handboltaskóla á Selfossi. Þvílík hamingja hjá þeim og dagarnir taldir niður, bara nokkrir dagar til stefnu :)

Þeir æfa því fótbolta á Hvammstanga og handbolta á Selfossi ;)

Hvað ætli orðið Selfoss komi oft fyrir í þessari klausu ;)

Sunna eldri systir þeirra er gift Chris Caird sem var að skrifa undir körfuboltasamning hjá Tindastól á Sauðárkróki, ég spurði Chris í gríni hvort hann gæti ekki verið með

körfuboltaskóla fyrir krakka einhverja vikuna, þá gætu strákarnir æft körfubolta á Sauðárkróki ;)

Selfoss gengið mitt ☆

Loksins þegar ég náði öllum börnunum saman, öll stödd á sama stað á landinu, öll með Selfosspeysurnar, þá var það bara aðeins of mikið fyrir alheiminn svo það helltist þessi mikla þétta þoka yfir okkur, en við þrjóskuðumst við og reyndum okkar besta til að festa atburðinn á mynd, einstakt "allir á sama stað með Selfoss peysur" moment ;)

Við mætum eins og við getum á leiki þegar Perla er að keppa, reynum að vera sem vínrauðust og fylla áhorfendastúkuna ;) En Perla er þá auðvitað inn á vellinum og ekki í vínrauðupeysunni sinni heldur í harpix klístruðum keppnisgalla og varla knúshæf, en auðvitað látum við ekki smá klístur stoppa okkur :) (Krakkarnir ólust nú upp við Línu Langsokk með Konráðs gæðaklístur, sem allt er hægt að gera allt með, svo smá harpix gerir bara gott) ;)

Og þokan þyngdist, svo þeim yngstu var bara smellt í úlpur, harkan sko ;)

Myndirnar voru teknar 4. júní og það hefur ekki enn gefist færi aftur á að ná þeim öllum saman, alltaf einhver í burtu!

Perla sem smitaði öll systkini sín af Selfoss aðdáun

Nokkrar eldri handboltamyndir af Perlu. (æ já ég er mjög stolt af molunum mínum :)

Finnst þessi æðisleg þegar Myrra horfir upp til stóru systur ☆ flott fyrirmynd

☆☆☆


bottom of page