Einkunnir og eldhúslærdómur
Einkunnirnar komnar í hús, öllum áföngunum náð og 8,1 í meðaleinkunn eftir þessi tvö ár í HA :D Bara nokkuð ánægð með þetta, auðvitað langar mig alltaf í aðeins hærri einkunn en þetta bara ansi gott :)
Ég rauk beint á netið og athugaði með elsku Eames gráa ruggustólinn minn sem mig langar svo í, og ég verð víst að bíða með hann aðeins lengur sem verðlaun, hann er ekki alveg gefins þessi elska, læt mig dreyma um hann aðeins lengur. Kannski verður hann stóllinn minn sem ég sit í þegar ég verð búin með námið og orðin sálfræðingur, skjólstæðingar mínir verða ein taugahrúga þegar þeir fara úr tíma frá mér, ég verð alveg búin að taka þá á taugum með öllu ánægju rugginu mínu yfir því að vera loksins búin að eignast stólinn minn ;)
Stundum er pínu snúið að skipta tímanum jafnt á milli fjölskyldu, heimilis, náms, tómstunda og mín, sinna öllu sem þarf að sinna, vera með hugann við það sem ég er að gera og ekki hugsa um það sem ég ætti og þyrfti að vera að gera helst á sama tíma. Þess vegna ætlum við að nýta sumarfríið vel í alla staði, hafa sem skemmtilegast og vinna upp það sem setið hefur á hakanum :D
Námsaðstaðan mín, ekki oft svona snyrtileg á vetratíma ;) Og ansi oft sem ég er komin með skóhorn, álpappír, kexpakka, spaghettístaukinn, pottlok eða aðra hluti á borðið hjá mér inn á milli námsbóka, hluti sem ég hef kippt af Bæron þegar hann hleypur hérna fram hjá mér, hann er ansi duglegur! Ég læri sem sagt inn í eldhúsi þar sem allt gerist, lífið og fjölskyldan er.
Pínu tómleg aðstaða, en ég er alltaf að fara í það að fara að fá mér lampa ;) og svo þar sem ég hef verið með lítil börn frá því....alltaf, þá er ég bara rétt að byrja á að fá mér aftur fallega hluti og punta.
Ein skúffan á skrifborðinu mínu er oftast full af súkkulaði til að fleyta mér áfram, eða ætti kannski frekar að segja að einstaka sinnum er skúffan full af súkkulaði en flesta daga er hún full af tómum súkkulaðibréfum þar sem ég er mun fljótari að borða súkkulaðið en að fylla á skúffuna aftur, og ekki get ég hent bréfunum í ruslið því þá sést hvað ég er búin að borða mikið, mun betra að skilja tóm súkkulaðibréf og kassa eftir í skúffum og skápum, eða allavega þangað til að eldri dömurnar fara að leita sér að nammi og grípa allstaðar í tómar umbúðir ;)
Lognið fór ansi hratt yfir hjá okkur í dag svo við dunduðum okkur flest inni og bjuggum meðal annars til leir, sem heppnaðist bara ekkert mjög vel :) Ég verð að finna betri uppskrift af leir, þessi þornaði of hratt, það var salt út um allt borð en krökkunum fannst þetta æðislega merkilegt og við áttum mjög skemmtilegt drullumall og föndur saman. Vanalega á ég nóg á Play-doh leirdollum en hendi þeim þegar leirinn byrjar að molna svo núna var bara engin eftir, þá fer maður á netið og googlar leir uppskriftir ;)
Þegar ég var að lita leirinn með matarlit fann ég að við erum alveg að fara að skella okkur í sumar-piparkökubakstur :)
Börnin sáu um kaffitímann, Skjöldur bakaði vöfflur, Jasmín bjó til súkkulaðið, litlir gormar lögðu á borð og ég gerði mest lítið annað en að hrósa börnunum og taka myndir ;) jú ég bakaði pönnukökur, gerði alveg eitthvað gagn ;)