top of page

Nú toppaði Frosti sjálfan sig


Þessir dásemdar synir mínir, þeir hafa allir verið með búninga æði, Bæron er bara 1 árs svo það kemur síðar í ljós hvernig hann verður, en eldri bræðurnir hafa allir verið mikið fyrir þessa hefðbundnu ofurhetjubúninga.

Árið 2009 fór ég með krakkana til Orlando og það var enginn möguleiki að ná Skildi 4 ára úr Íþróttaálfsbúningnum svo hann var Íþróttaálfur í flugvélinni, á þessum sama aldri tók hann Tarsan-tímabil og vildi bara vera á nærbuxunum einum fata (lítill þvottur hjá mér þá dagana ;).

Frosti og Eldon eru búnir að taka í vetur Nonna og Manna-tímabil, þeir kolféllu fyrir þáttaröðinni um þá bræður og lifðu sig í hlutverkin, klæddir ullarpeysum og höttum.

Skjöldur, Frosti og Eldon eru líka búnir að vera með æði fyrir höttum sem ég ýti alveg undir því mér finnst strákarnir svo flottir með hatta :)

En Frosti toppaði sjálfan sig og ég held bara alla í gærkvöldi! Sko hann er búin að taka ansi skemmtilega syrpu núna í vetur eftir Nonna og Manna tímabilið. Hann tók nokkra daga sem Tinni og sem Emil í Kattholti. Svo heillaðist hann svo af bóndanum á næsta bæ og þá vildi hann bara ganga í peysu og buxum sem líktust peysu og vinnubuxum bóndans, eftir það átti Messi hug hans allan og þá var hárgreiðslan, stuttubuxur og bolur aðal málið. Alltaf vilja allir strákarnir líka gera allt eins og pabbi þeirra og vera eins og hann, pabbi þeirra er líka heimsins bestur í fótbolta og næstur á eftir kemur Messi að þeirra sögn, sem er alveg ábyggilega satt ;)

En já með hann Frosta, eftir að við sáum leiksýninguna í Hjarta Hróa hattar þá gekk drengurinn hér um ber að ofan með tagl og belti og bað mig um hvort ég gæti keypt handa honum þunnt vesti, ekki svona þykkt dúnvesti eins og hann ætti.

Allt í lagi, þetta er allt gott og blessað og bara dásamlegt. En núna þar sem hann fór á leiksýninguna Súperstar í vetur og er búin að vera að hlusta á gömlu Jesus Christ Superstar diskana mína, þá bað drengurinn mig um í gærkvöldi hvort ég væri til í að kaupa fyrir hann hvítan kyrtil!

Í þetta sinn ákvað ég að segja bara strax nei, ég er ekki alveg til í að hafa drenginn labbandi hér um í hvítum kyrtli leikandi jesú! ;) Hann er nú meiri snillingurinn þessi drengur og þeir allir, algjört æði ❤❤❤

Hrói Höttur!

Tinni

Nokkrar gamlar

Skjöldur eins og pabbi ❤

Pabbi drakk kaffi úr bolla, þá drakk Frosti líka úr bolla...

Íþróttaálfurinn flaug með okkur til Orlando :)

Þvottadagur ofurhetja

Spiderman kom auðvitað með í réttir

Og ein ný af Eldon Dýra sykursnúð :)


bottom of page