top of page

Byrjuðum daginn með nýbökuðu rúgbrauði


Við Myrra Venus byrjuðum daginn snemma með nýbökuðu rúgbrauði og hún með nokkrum auka skömmtum af smjöri ;)

Ég á það til að mikla sum verk fyrir mér og kem mér ekki í þau, en um leið og ég byrja á þeim þá er allt svo ekkert mál. Eins og með að baka rúgbrauð, kleinur, snúða og piparkökur, ef ég leyfi of löngum tíma að líða á milli þess að baka þetta þá kem ég mér ekki í verkið þó ég viti að þetta sé ekkert mál.

Þetta rúgbrauð er algjört sælgæti og súper einfallt og ég elska súper einfalda hluti ;)

460gr. rúgmjöl

260gr. heilhveiti

3 tsk. salt

3 tsk. matarsódi

1 L. súrmjólk

350gr. síróp

Öllu hrært saman (ég nota bara skál og sleif), sett í 3 mjólkurfernur, loka fernunum og inn í ofn á 100° í 9 klst.

Mér finnst fínt að setja brauðin í ofninn klukkan tíu á kvöldin og taka þau út klukkan sjö á morgnana, dásemd að vakna við ilm af nýbökuðu :)

Ég geri alltaf tvær eða þrjár uppskriftir á sama tíma þá er ég með 6-9 rúgbrauð, en ég margfalda ekki uppskriftina ég geri hana frekar 3 sinnum, þá er mjög auðvelt að eiga við deigið :)

Myrra Venus nývöknuð og byrjar daginn á nýbökuðu rúgbrauði <3

Börnin mín elska smjör þegar þau eru lítil og vilja svo varla sjá smjör þegar þau eldast ;)


bottom of page